Hugtakið verðmætasköpun kemur fyrir sex sinnum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar. Í öllum tilfellum er hugtakið notað með óljósum og almennum hætti og lesandinn er engu nær hvað ríkisstjórnin ætlar að gera nákvæmlega til að stuðla að aukinni verðmætasköpun.

Stjórnarsáttmálinn er aftur á móti kýrskýr þegar kemur að málefnum sjávarútvegsins. Þar á að auka álögur á útgerðina enn frekar og grafa undan verðmætasköpun á sama tíma með því að tryggja svokölluðum standveiðibátum fjörutíu og átta sóknardaga á sumri.

Það kann að hljóma sakleysislega í eyrum leikmanna. Staðreyndir málsins eru aðrar. Strandveiðiflotinn veiddi um 12 þúsund tonn í fyrrasumar á þrjátíu og þremur dögum. Það viðraði ekkert sérstaklega vel til strandveiða frekar en annarrar útiveru síðastliðið sumar. Ekki er óvarlegt að ætla að breyting ríkisstjórnarinnar á strandveiðunum muni leiða til þess að smábátasjómenn muni tvöfalda hlut sinn í veiðum á bolfiski á komandi sumri. Þessi hlutur er tekinn af þeim sem eru í aflamarkskerfinu.

Það stunduðu um 750 smábátar strandveiðar í fyrra. Viðbúið er að sóknin verði enn þyngri á komandi sumri. Ástæðan er ekki einungis fjölgun sóknardaga. Nú geta grásleppubátar lagt inn leyfi sín eins og krókabátar og haldið til strandveiða. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir um þúsund bátum á þessum veiðum í sumar og að þeir landi um tuttugu þúsund tonnum.

Fórnarkostnaðurinn við að veiða þennan afla á smábátum í stað öflugra skipa í aflamarkskerfinu, þar sem fjárfest hefur verið í skilvirkni og verðmætasköpun, í töpuðu aflaverðmæti fyrir þjóðarbúið gæti numið á bilinu þremur til fjórum milljörðum.

Að öllu öðru óbreyttu mun sóknin þyngjast enn frekar þegar fram líða stundir og krafan um sífellt stærri hlut smábáta í heildaraflanum verða háværari. Fórnarkostnaðurinn er greiddur í sífellt minna aflaverðmæti. Þetta er það sem kallað er harmleikur almenninganna innan hagfræðinnar.

Þetta er eitthvað sem Daði Már Kristófersson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, getur útskýrt fyrir almenningi og samráðherrum sínum. Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu á dögunum skrifaði Daði ásamt fjórum öðrum hagfræðingum grein um efnahagslegar afleiðingar strandveiða á Íslandi í tímaritið Regional Studies in Marine Science árið 2021. Niðurstaða greinarinnar er að strandveiðar hafi í för með sér efnahagslega sóun og að „strandveiðarnar séu ekki efnahagslega skynsamlegar vegna þess að það væri mun ódýr-ara að veiða fiskinn með skipum sem þegar eru innan aflamarkskerfisins“.

Sé Daði Már of upptekinn við að setja sig inn í nýtt starf til þess að útskýra málið þá er hægt að leita til Ingvars Þóroddssonar, samflokksmanns hans og oddvita Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Hann birti ágæta grein á Vísi í ágúst í kjölfar þess að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, bætti tvö þúsund tonnum af þorski við strandveiðipottinn.

Ingvar bendir þar á að það sé samfélagið allt sem verður af verðmætum þegar aflaheimildir eru teknar út úr arðbærum hluta kerfisins og færðar annað. Þetta sé styrkur til útgerðarmanna smábáta og fórnarkostnaðinn bera fyrst og fremst áhafnirnar á aflamarksskipunum og starfsmenn útgerðanna sem borga þorrann af styrknum til strandveiðanna.

Ingvar segir: „Þar sem þorrinn af styrknum til strandveiðanna er greiddur af öðrum útgerðarformum en ekki beint úr ríkissjóði fá stjórnmálamenn þetta prýðisfína tækifæri til að skora ódýr stig með því að hygla háværum sérhagsmunahópum á kostnað annarra skattgreiðenda.“

Það veldur miklum vonbrigðum að Viðreisn geri einmitt þetta í einum af sínum fyrstu verkum í nýrri ríkisstjórn.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. janúar 2025.