Aðili sem ætlar sér að taka yfir hlutafélag með þeim hætti að eignast allt hlutaféð í því (100%) þarf einungis samþykki hluthafa sem eiga rétt rúmlega 90% hlutafjár. Ef hann nær því, þá getur hann og stjórn félagsins knúið aðra hluthafa, sem eiga allt að 10% hlutafjár, til að selja sér sína hluti. Engu máli skiptir þótt umræddir minnihlutahluthafar séu á móti yfirtökunni. Þeir verða að selja skv. lögum um hlutafélög nr. 2/1995.
Það sem hér er rætt um er svokallaður innlausnarréttur. Í lögum um einkahlutafélög eru sams konar reglur. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir innlausnarrétti við framangreindar aðstæður. Tilefni greinarinnar er ekki innlausnarrétturinn, heldur þau skattalegu áhrif sem beiting hans hefur á einstaklinga.
Þeir hluthafar sem samþykkja kauptilboð yfirtökuaðila og gera yfirtökuaðila kleift að ná eignarhaldi á rúmlega 90% hlutafjár í hlutafélaginu (eða einkahlutafélaginu) eru yfirleitt óskattskyldir af söluhagnaði af sinni sölu, eins og í þeim tilfellum þegar hluthafar eru hlutafélög, einkahlutafélög og lífeyrissjóðir.
Hluthafarnir sem eftir standa eru yfirleitt einstaklingar, en söluhagnaður af innlausn þeirra er skattskyldur í 22% fjármagnstekjuskatthlutfalli. Þessi munur á skattlagningu á við óháð því hvort endurgjaldið er reiðufé, hlutir í öðru félagi eða hvorutveggja reiðufé og hlutir í öðru félagi. Einstaklingar eru skattskyldir af mismuni söluverðs og kaupverðs, jafnvel þótt þeir þiggi eingöngu hluti sem endurgjald (ekki reiðufé).
Ekki nóg með að gildandi lög geri einstaklinga þannig fjármagnstekjuskattskylda vegna skipta á hlutum, heldur geta skattskyldar fjármagnstekjur leitt af sér a.m.k. tvenns konar aðrar neikvæðar afleiðingar fyrir einstaklingana.
Undirritaður telur þetta fyrirkomulag ósanngjarnt. Lausnin væri hins vegar ekki að hrófla við innlausnarréttinum heldur að breyta skattlagningu einstaklinga við þessar aðstæður. Þannig ætti ekki að skattleggja söluhagnað einstaklinga af hlutabréfum þegar þeir sæta innlausn með framangreindum hætti, skv. lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, í þeim tilvikum sem þeir þiggja eingöngu hluti í öðru félagi sem endurgjald, heldur skattleggja eingöngu síðar þegar og ef viðtökuhlutirnir verða seldir með söluhagnaði.
Ekki nóg með að gildandi lög geri einstaklinga þannig fjármagnstekjuskattskylda vegna skipta á hlutum, heldur geta skattskyldar fjármagnstekjur leitt af sér a.m.k. tvenns konar aðrar neikvæðar afleiðingar fyrir einstaklingana: Í fyrsta lagi getur skattur til greiðslu komið í veg fyrir að einstaklingarnar geti þegið boð um hluti í öðru félagi sem endurgjald því þeir þurfa reiðufé til að fjármagna skattgreiðsluna. Í öðru lagi þá geta skattskyldar fjármagnstekjur lækkað tekjutengdar bætur viðkomandi einstaklinga.
Neikvæð áhrif á hlutabréfamarkað
Þetta er ekki bara ósanngjörn skattlagning, heldur hefur hún þau áhrif að draga úr fjárfestingum einstaklinga í íslenskum hlutabréfum og þar með neikvæð áhrif á íslenskan hlutabréfamarkað, hvort sem hann er skipulegur eins og hjá Nasdaq Iceland eða óskipulegur hjá óskráðum félögum.
Vilji hefur oft staðið til þess að auka þátttöku einstaklinga á hlutabréfamarkaði og þá hafa stjórnvöld oft sýnt vilja til þess að auka erlenda fjárfestingu í íslenskum fyrirtækjum, sbr. t.d. frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi síðasta vetur (frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (erlendar fjárfestingar) þskj. 1366, 921. mál á 154. löggjafarþingi). Yfirlýst markmið frumvarpsins er að „gera Ísland samkeppnishæft við önnur lönd um erlent fjármagn til þess að styðja við íslenskt atvinnulíf“.
Fordæmi um skattaundanþágu
Í skattalöggjöfinni eru til staðar fordæmi um undanþágu frá skattlagningu við áþekkar aðstæður. Eitt fordæmanna kemur fyrir í 53. gr. a laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en þar er kveðið á um að sé verðbréfasjóði eða hlutdeildarsjóði slitið, þannig að hann sé algjörlega sameinaður öðrum slíkum verðbréfasjóði eða hlutdeildarsjóði, skuli sameiningin ekki leiða til skattskyldu hjá eigendum þess sjóðs sem slitið er, enda sé um jafngild verðmæti að ræða.
Ekki kemur til greiðslu reiðufjár, heldur er hlutdeildarskírteinum skipt yfir í önnur með innlausn á þeim fyrri og nýkaupum á þeim síðari, án skattlagningar. Skattlagningin verður síðar þegar og ef hlutdeildarskírteinin eru innleyst með ábata.
Tillaga um breytingu
Undirritaður leggur því til að hætt verði að skattleggja söluhagnað einstaklinga af hlutabréfum þegar þeir sæta innlausn með framangreindum hætti, skv. lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, í þeim tilvikum sem þeir þiggja eingöngu hluti í öðru félagi sem endurgjald, heldur skattleggja eingöngu síðar þegar og ef einstaklingurinn selur viðtökuhlutina með söluhagnaði. Um réttlætismál er að ræða sem jafnframt er til þess fallið að styðja við íslenskan hlutabréfamarkað og erlenda fjárfestingu.
Símon Jónsson er lögmaður og meðeigandi Deloitte Legal.