Það er vor í lofti. Allra hörðustu kylfingarnir eru byrjaðir að skila sér heim úr vorgolfferðunum og eru klárir í golfsumarið. Metfjöldi hefur þetta vorið útskrifast úr golfskólum ferðaskrifstofanna. Það er nauðsynlegt fyrir alla kylfinga að njóta golfsumarsins eins og best verður á kosið. Þar leika veðurguðirnir stórt hlutverk. En hvað er það sem í rauninni skiptir máli svo að njóta megi golfsumarsins eins og best verður á kosið?
Hér eru 10 lykilatriði sem tekin hafa verið saman af helstu sérfræðingum okkar.
1.
Öllum öðrum kylfingum en þér sjálfum er nokk sama um skorið þitt. Ef við eigum að vera alveg hreinskilin þá er þeim eiginlega bara skítsama. Svo lengi sem þú getur leikið 18 holu hring á 4 klukkustundum í fjögurra manna ráshópi og verið skemmtilegur félagsskapur þá skiptir ekkert annað máli. Sé leikhraði á tilteknum golfvelli hraðari en 4 klst., þá verður þú að halda þeim leikhraða. Hrósaðu meðspilurum þínum fyrir góð högg og vertu hvetjandi. Golf er erfitt og tæknilega flókin íþrótt.
2.
Það á að vera gaman í golfi. Golf er skemmtun, góð útivera og góð hreyfing fyrir hinn almenna golfara. Golfvöllurinn er ekki rétti staðurinn til að taka út pirring á lífinu. Sund, þá sérstaklega sjósund, útihlaup eða fjallgöngur eru mun hentugri afþreying fyrir þá sem eru pirraðir. Þar er nefnilega ekki verið að telja högg eða punkta.
3.
Það er engin ástæða til að fórna lífinu fyrir einn Stableford-punkt. Ef þú ert búinn með fjögur eða fimm högg og ekki kominn inn á flöt og í almennum ógöngum, taktu þá upp boltann. Settu hann inn á flötina í 5-7 metra fjarlægð frá holunni og púttaðu tvisvar að hámarki. Ef boltinn er ekki í holunni, taktu hann þá upp og láttu leik lokið. Fékkst ekkert skor á holunni. Sýndu þér þolinmæði. Gerir betur á næstu holu. Sjá reglu 1.
4.
Ekki ræða golfið þitt óumbeðinn. Ef einhver spyr, hafðu þá svörin stutt og hnitmiðuð. Horfðu á björtu hliðarnar. Ef þú áttir eitt frábært teighögg en öll hin voru ömurleg, fékkst eitt par eða fugl, þá er svarið: „Ég sló frábærlega af teig og skellti í einn fugl. Púttin voru ekki að detta.“ Málið dautt. Viðmælandi þinn mun ekki geta hjálpað þér með það sem illa gekk. Golfkennari er mun líklegri til að geta aðstoðað.
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu EV Golf, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.