Tæknifíklar biðu margir spenntir eftir því að 4G-háhraða gagnaflutningsþjónustan lenti hér á landi. Nova var fyrst fjarskiptafyrirtækja til að bjóða upp á slíka þjónustu hér um síðustu mánaðamót eftir að Póst- og fjarskiptastofnun úthlutaði fyrirtækinu leyfi til þess. Þjónustan mun fyrst í stað einskorðast við höfuðborgarsvæðið. Vb.is fékk þráðlausa hnetu og annan tækjabúnað hjá Nova til að leika sér með gagnaflutningstæknina í nokkra daga.
Þessi fjórða kynslóð í fjarskiptum er eins og nafnið gefur til kynna - gagnaflutningstækni. Engin ný skref eru stigin í talsamskiptum heldur einskorðast hún eingöngu við tengingu ýmissa tækja við Netið og flutning á myndefni og þyngri gögnum yfir það. Viðskiptablaðið var með hnetu, þráðlausa ferðagræju og beini (e. router) til heimilisnota. Ferðagræjan gengur á venjulegum rafhlöðum en beinirinn er með rafmagnssnúru. Við ferðagræjuna er hægt að tengja allt að tíu þráðlaus tæki, s.s. falvur, spjaldtölvur og fleira en allt að 30 við beinirinn. Þeir sem hyggja á slíkt verða að hafa í huga að eftir því sem fleiri tæki tengjast einu boxi á borð við hnetu og beini verður rápið eðlilega þyngra og hægara í vöfum.
Með Kindle úti í skógi
Blaðamaður vb.is gerði ýmsar tilraunir með möguleika 4G-tækninnar. Til dæmis voru bornir saman tveir snjallsímar sömu gerðar (iPhone 4S) og niðurhal í þeim eftir því hvort tengst var í gegnum 3G-kerfi fjarskiptafyrirtækis eða 4G-netið, horft var á sjónvarp í spjaldtölvum og annað í svipuðum dúr meðalnotanda. Eins og þeir sem til þekkja þá geta 3G-tengingar verið hægar og reynir stundum á þolinmæðina. Blaðamaður vb.is fann ekki fyrir neinu slíku í tilraunum sínum þegar hann prófaði 4G-tæknina.
Eins og sést á hraðamælingu sem gerð var með Samsung Galaxy III er hraðinn mjög góður (10 MB) og jafnast á við það sem best gerist á staðarneti. Kosturinn við 4G-ferðagræjuna kom berlega í ljós þegar farið var með Kindle Fire-tölvu af fyrstu kynslóð út í skóg og hún tengd við ferðahnetuna. Eins og þeir vita sem eiga slíkar tölvur - og pirra sig sumir á þegar þeir yfirgefa veggi heimilisins - þá er ekki hægt að tengja tölvuna við annað gagnaflutningsnet fyrr en komið er heim aftur. En þegar 4G-hnetan var meðferðis í ferðlagi blaðamanns vb.is var hraðinn góður og nær enginn munur á því hvort hann var heima hjá sér eða úti í lítilli laut.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)