Mikil kyrrseta getur leitt til stífleika í mjöðmum, nára og baki. Þá getur einhæf hreyfing án liðkunar og hreyfingarleysi einnig leitt til stífleika í líkamanum.
Einföld lausn við stífleika er að teygja. Prófaðu að taka þessar teygjur í amk. 30 til 60 sekúndur.
Dúfan - mjaðmir og rass:
- Komdu þér fyrir í hálfkrjúpandi stöðu, leggðu svo fremri fótinn í 90° fyrir framan þig á gólfið og reyndu að rétta úr aftari fætinum eins og þú getur án þess að snúa mjöðmunum til hliðar.
- Hægt er að leika sér með erfiðleika teygjunnar með því að breyta horninu á fremri fæti eða breyta hversu uppréttur maður sé.
Fullkomna teygjan – mjaðmir, nári og brjóstbak:
- Komdu þér fyrir í hálfkrjúpandi stöðu, réttu svo úr aftari fætinum þannig hann sé eins beinn og þú getur og fremra hné yfir miðri fremri rist.
- Reyndu næst að leggja olnbogann á gagnstæðri hendi, miðað við fremri fót, niður í gólf. Lyftu hendinni svo aftur upp, teygðu hana upp í loft og horfðu á eftir hendinni þannig þú fáir góða bolvindu.
- Ef teygjan reynst of erfið er hægt að leggja aftara hnéð niður í gólf.
Sófateygjan – Læri og nári :
- Komdu þér fyrir í hálfkrjúpandi stöðu með aftari fótinn upp við vegg. Spenntu rass og maga þannig þú haldir hryggnum eins beinum og þú getur og tillir mjöðminni undir þig.
- Þessi teygja er mjög krefjandi ef maður gerir hana rétt og er t.d. góð fyrir þau sem glíma við verki í baki sem má rekja til kyrrsetu.
- Til að gera teygjuna auðveldari getur maður sett hendur niður í gólf fyrir framan sig en erfiðasta útgáfan er að vera alveg uppréttur við vegginn.
Standandi kálfateygja - kálfar:
- Leggðu hendur á vegg fyrir stuðning og leggðu svo annan fótinn upp að veggnum þannig að hællinn sé í gólfinu og tærnar á veggum. Hallaðu þér svo nær veggnum og leiktu þér með líkamsstöðu mjaðma og efri búks þannig þú finnir fyrir góðri teygju í kálfanum.
Framhallandi pönnukaka – aftanverð læri og mjaðmir:
- Stattu með fætur fætur í sundur (um tvöföld axlarbreidd) og hallaðu þér fram eins langt og þú getur þannig að þú finnir góða teygju aftan í læri án þess að spennast upp.