Defender OCTA var frumsýndur síðasta sumar og er framleiðsla hafin á bílnum. Þessi útgáfa er hönnuð fyrir bæði krefjandi torfæruakstur og betri aksturseiginleika á vegum.
Í það minnsta er einn OCTA á leið til landsins og kostar slíkur gripur um 50 milljónir króna þegar tollstjóri og aðrir skattheimtumenn hafa farið höndum um gripinn.
Stærri vél
Defender OCTA er knúinn af 4,4 lítra tví-túrbó V8 vél með mildri hybrid-tækni. Vélin skilar 635 hestöflum og 750 Nm af togi, sem gerir bílnum kleift að ná 0-100 km/klst á um 4 sekúndum.
Bíllinn er hannaður fyrir mikinn kraft og viðbragðsflýti, bæði í daglegum akstri og í torfærum. Næstöflugasti Defenderinn er V8 sem skilar 518 hestöflum.
Til að bæta aksturseiginleika notar OCTA nýtt 6D Dynamics fjöðrunarkerfi. Kerfið stillir sjálfkrafa jafnvægi bílsins eftir akstursskilyrðum, sem eykur stöðugleika og þægindi í krefjandi aðstæðum.

Hönnunin
Defender OCTA er með endurbættu útliti miðað við hefðbundna Defender-gerð. Ytra byrðið inniheldur nýja útfærslu á framgrilli, sérhannaðar felgur og auknar varnir fyrir torfærur. Íburðurinn að innan er einnig nokkuð meiri en í dýrustu gerðunum hingað til.
Torfærugeta og notagildi Eins og fyrri Defender-bílar er OCTA byggður fyrir torfærur, en með bættu jafnvægi og öflugra drifkerfi. Hann býður upp á aukna veghæð og er með háþróuðum akstursstillingum fyrir mismunandi landslag. Meðal annars OCTA stillinguna sem á að bæta aksturshæfni á malarvegum.
Fjallað er um málið í sérblaðinu Bílar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn síðasta.