Einn öflugasti sportbíllinn frá Mercedes-AMG er kominn á götur Keflavíkur. Mercedes-AMG GT 63 er tveggja dyra með 8 lítra V vél með svokallaðri E-PERFORMANCE tækni. Þetta er önnur kynslóð GT, sem kom á markað árið 2023. GT kom fyrst á markað árið 2014.

Til viðbótar við bensínvélina er um 200 hestafla rafmótor í bílnum. Samanlagt er bíllinn 816 hestöfl og fer hann úr kyrrstöðu í 100 km/klst á 2,8 sekúndum.

Listaverð á bílnum hjá Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi, er 52,5 milljónir króna.

Eigandi bílsins er Magnús Sverrir Þorsteinsson, forstjóri bílaleigunnar Blue Car Rental í Keflavík.

Átti að vera 911 bani

Þegar Mercedes kynnti fyrstu kynslóð AMG GT árið 2014 var markmiðið skýrt. Að fara í samkeppni við Porsche 911.

Bíllinn var þróaður af AMG frá grunni. Var það í annað sinn sem AMG hluti Mercedes þróaði bíl frá grunni. Hinn var SLS AMG sem kom á markað 2010.

Þýska bílablaðið Auto Motor und Sport lýsti bílnum á sínum tíma sem „der 911-Killer aus Affalterbach“ – 911 baninn frá Affalterbach - heimabæ AMG. Það var líkt Mercedes væri að stíga inn á „heilagt“ svæði í þýska bílaheiminum.

Aflmesti Porsche 911 er Turbo S. 911 bílarnir eru flestir búnir litlum rafmótorum, en mun minni en GT-63. Turbo S er 640 hestöfl og er 2,7 sekúndur í hundraðið.

Verðið á slíkum bíl er varla undir 60-70 milljónir króna kominn til Íslands, eftir að Daði Már Kristófersson hefur leiðrétt verðið með sköttum og gjöldum - eða öllu heldur tvöfaldað það.