Ford er að undirbúa framleiðslu á ofurútgáfu af Mustang sem á að koma á götuna síðla næsta árs í takmörkuðu magni.
Ofursportbíllinn ber heitið Mustang GTD og er sagður öflugasti bíllinn með hestamerkinu frá upphafi.
Bíllinn er byggður á Mustang GT3 keppnisbílnum sem mun snúa aftur til Le Mans á næsta ári. Mustang GDT er m. a. byggður úr koltrefjaplötum og er með magnesíumfelgur. Undir húddinu er gríðarlega öflug 5,2 lítra V-8 vél. Bíllinn er með átta gíra gírkassa.
Vélin mun skila bílnum rúmlega 800 hestöflum og gerir Mustang GTD að öflugasta bíl framleiðandans. Bíllinn er enn öflugri en Ford GT MK IV, sem aðeins er ætlaður fyrir kappakstursbraut og kom fram á sjónarsviðið í fyrra. Þetta er alvöru frammistöðubíll sem á að sögn Ford að keppa við sportbíla Porsche, Aston Martin og Mercedes-Benz.