Björn Víglundsson er sölustjóri hjá Heklu og passar upp á merki fyrirtækisins Audi, Volkswagen, Skoda og Mitsubishi. Björn viðurkennir að þrátt fyrir starf sitt sem sölustjóri hafi hann aldrei verið með bíladellu á háu stigi en hafi alltaf haft gaman af bílum. Björn ekur um á Audi Q8 e-tron sem hann segir besta bíl sem hann hafi átt og hann sé í raun draumabíllinn. Hann nefnir að gamall Land Rover Defender eða nýr Grenadier séu líka draumabílar.

„Ég hóf störf hjá Heklu fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég hef fjölbreytta reynslu úr ýmsum geirum, en til viðbótar við bílageirann hef ég starfað í tryggingabransanum, við fjarskipti og fjölmiðla, ferðaþjónustu og ýmislegt fleira. Það er ágætt að hafa fjölbreyttan bakgrunn og alltaf gaman að koma aftur í bílana, enda mjög skemmtilegt að selja vörur sem viðskiptavinir hafa mikinn áhuga á að kaupa. Viðskiptavinir eru ekki alltaf spenntir fyrir söluræðum um nýju frábæru trygginguna eða nýja fjarskiptapakkann, en það eru flest mjög áhugasöm um nýjar bifreiðar. Þær vekja alvöru áhuga hjá viðskiptavinum og það gerir starfið skemmtilegra. Það skemmtilegasta við þetta starf er án efa að sjá blikið í augum viðskiptavina þegar nýr bíll er afhentur. Það er stór dagur í lífi fólks að fá afhentan nýjan bíl og það er gaman að fá að taka þátt í því,“ segir Björn. Hann svarar hér nokkrum spurningum tengt bílum.

Björn undir stýri á Audi RS7 í svissnesku ölpunum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Bíladellan mín hefur, ótrúlegt en satt, aldrei verið mjög mikil. Ég hef vissulega gaman af fallegum bílum, en ég hef aldrei skorað mjög hátt á bíladelluskalanum. En það er nú samt alltaf gaman að setjast upp í nýja og fallega bifreið. Ég hugsa að skemmtilegasti bíllinn sem ég hef ekið sé Audi RS7. Það er ótrúlegur gripur með útlit saklaus fjölskyldubíls en kraft á við Formúlu 1 bíl. Ekki skemmir fyrir hljóðið sem hann gefur frá sér. En það eru margir aðrir sem koma upp í hugann. Það mætti nefna Toyota Corolla rallýbíl sem ég keyrði einu sinni á frosnum vötnum Svíþjóðar nú eða Audi GT e-tron Ice Race sem við hjá Heklu fengum nýlega til sölu. Það er virkilega skemmtilegur bíll.”

Uppáhaldsbíllinn sem þú hefur átt?

„Ætli það sé ekki bara núverandi bíll Audi Q8 e-tron. Þetta er geggjaður bíll að keyra. Það er að minnsta kosti þannig að ég er í mestu vandræðunum að halda honum fyrir utan bílastæðið heima því börnin eru alltaf búin að stela honum um leið og honum er lagt.”

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Það hafa verið margar áhugaverðar bílferðir, það var t.d. eftirminnilegt þegar ég starfaði hjá Toyota og við fengum bílablaðamenn alls staðar að frá Evrópu og fórum í mikla hálendisferð með þau. Gist var í tjöldum og mikill safaríbragur yfir þessu öllu. Ég held að þetta hafi verið árið 2003 þegar nýr Land Cruiser 90 var nýkominn á markað. Það var mjög eftirminnilegt.“

Hver er skemmtilegasta bílferðin þín erlendis?

„Það er væntanlega þegar ég fór nýlega að keyra umræddan Audi RS7. Farið var um alpavegi í ýmiskonar veðrum og góðum félagsskap. Keyrt var um svissnesku Alpana, með nokkrum óþarfa ferðum í gegnum Gotthard-göngin og gist í skíðabænum Andermatt. Þarna eru frábærir akstursvegir sem eru sérstaklega skemmtilegir þegar maður er með villdýr í höndunum.“

Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.