Fleiri innlendir pakkar fóru í gegn hjá Póstinum í nóvember heldur en í öllum desembermánuði í fyrra og má rekja það til meiri netverslunar en hún hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Alls jukust pakkasendingar í nóvember um 30% á milli ára. Aukninguna í nóvember má að hluta rekja til vinsælda þriggja netverslunardaga – Singles Day, Black Friday og Cyber Monday, þar sem verslanir buðu vörur með miklum afslætti . Pakkamagnið í nóvember bendir einnig til þess að Íslendingar hafi hugað fyrr að jólagjafainnkaupum í ár en í fyrra.
Erlendum sendingunum fjölgað um rúm 60% frá árinu 2016
Erlend netverslun er einnig í stöðugum vexti. Þegar fyrstu 11 mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil í fyrra kemur í ljós að sendingum erlendis frá hefur fjölgað um rúm 60%. Ekkert lát virðist vera á þessari aukningu og sérfræðingar spá því að netverslun Íslendinga haldi áfram aukast á næstu misserum.
Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Póstsins: „Það er óhætt að segja að það sé mikið að gerast hjá okkur en við erum að afhenda sendingar að meðaltali á 12 sekúndna fresti í heimkeyrslu. Við tókum einnig upp þá nýbreytni nú í nóvember á höfuðborgarsvæðinu að keyra pakka út á laugardögum til að bregðast við aukningunni. Innkaupavenjur Íslendinga eru að breytast hratt og mörgum finnst þægilegt að versla á netinu. Fólk upplifir sig öruggara í þessum viðskiptum en það gerði fyrir nokkrum árum. Það er líka auðvelt að fylgjast með för sendingarinnar á netinu og ef fólk er búið að skrá sendingarnar hjá Póstinum fyrirfram þá gengur tollskoðunin hratt fyrir sig og fólk fær pakkana afhenta á skömmum tíma.“
Lengri opnunartímar og síðustu öruggu skiladagarnir
Með auknum pakkasendingum hefur álag á pósthúsum aukist mikið og má búast við miklum fjölda sendinga í desember. Afgreiðsludagar verða því fleiri og opnunartímar verða lengdir í desember. Þannig verður opið alla daga fram að jólum á pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri ásamt því að opnunartími pósthúsa á öðrum stærri stöðum verður lengdur frá og með 17. desember.
Síðustu öruggu skiladagar pakka :
Norðurlönd Evrópa
Economy 8. desember Economy 8. desember
Exprés og Priority 15. desember Exprés og Priority 13. desember
TNT hraðsending 19. desember TNT hraðsending 19. desember
Önnur lönd Innanlands
Priority 8. desember Allir pakkar 20. desember
TNT hraðsending 18. desember
Síðustu öruggu skiladagar bréfa:
Innanlands Evrópa
B-póstur 18. desember B-póstur 8. desember
A-póstur 20. desember A-póstur 15. desember
Önnur lönd
A-póstur 8. desember