Helga Steffensen brúðuleikari er farin í gang með nýja sýningu, Allir dansa kónga, á 32. starfsári hennar hjá Brúðubílnum. Frumsýning fór fram á fimmtudaginn í Árbæjarsafninu en Helga hefur áður frumsýnt 56 sýningar með Brúðubílnum.
Minn markhópur er eiginlega frá því í barnavagni og upp úr,“ segir Helga sem játar það að hún beri talsverða ábyrgð á leikhúsuppeldi þjóðarinnar. Sýningar Brúðubílsins eru oft fyrsta leikhúsupplifun margra af yngstu kynslóðinni.
Inntak sýninganna hjá Brúðubílnum er að sögn Helgu að vera góður við alla, bæði vini og náungann. „Sýnum öllum umburðarlyndi, líka dýrunum, blómunum og allri náttúrunni. Fyrst og fremst vil ég að börnin skemmti sér og komi glöð og kát heim af sýningu. En auðvitað verður að vera smáspenna og þá koma inn þessar týpur sem eru hrekkjusvín og stríðnispúkar. Í flestum tilfellum er það úlfurinn eða refurinn sem standa fyrir slíkum uppákomum,“ segir Helga, en þeir fá alltaf makleg málagjöld og gera sér ljóst að það borgar sig að vera góður.