Ebba Katrín Finnsdóttir er rísandi stjarna í leikhúsheiminum. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir leik sinni í „Orð gegn orði“ í Þjóðleikhúsinu. Í verkinu er tekist á við spurningar um réttarkerfið, siðgæði, sekt og sönnunarbyrði í tengslum við kynferðisof beldi. Í viðtali við Eftir vinnu viðurkennir hún að hlutverkið hafi reynt á hana andlega og líkamlega, en hún segir það vera gefandi og mikilvægt að skapa umræðu um slík mál á leiksviðinu. Ebba leggur áherslu á að hlúa að eigin heilsu til að geta staðið sterk í þessu krefjandi hlutverki.
Um jólahátíðina fær Ebba að sýna aðra hlið í leikritinu „Jólaboðið“, þar sem hún færir áhorfendum bæði hlátur og jólastemningu ásamt því að leika í barnasýningunni Frost.
Í Jólaboðinu stígur hún á svið og leiðir áhorfendur í gegnum jólahátíðina í hundrað ár, frá 1918 til dagsins í dag. Leikritið fylgir fjölskyldu þar sem jólahefðir þróast og umbreytast í takt við tímann. Hún fæðist á sviðinu, deyr og endurfæðist sem nýr karakter.
„Ég er byrjuð að æfa fyrir sýninguna, og það er farið að koma jólaskap yfir mig,“ segir hún brosandi. Jólahátíðin hefur sérstaka þýðingu fyrir hana. „Jólin eru frekar heilög fyrir mér,“ segir hún og lýsir því hversu erfitt henni hefur reynst að hugsa sér að halda jól annars staðar en hjá foreldrum sínum. „Ég get eiginlega ekki hugsað mér jólin án þeirra og bræðra minna.“ Fjölskyldan heldur fast í ákveðnar hefðir, þar á meðal að heimsækja kirkjugarðinn og heiðra minningu ástvina með púrtvíni og vindlum. „Við förum alltaf í kirkjugarðinn á aðfangadag til að hitta föðurfjölskylduna,“ segir hún. „Það hefur verið fastur liður í mörg ár að skvetta púrtvíni á leiðið hjá ömmu og leggja vindil á leiðið hjá afa.“
Viðtalið við Ebbu Katrínu má finna í Jólagjafahandbók Eftir vinnu. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið viðtalið í heild hér.