Isuzu Motor Group hefur hafið fjöldaframleiðslu á rafdrifnum D-MAX með fjórhjóladrifi fyrir Evrópumarkað í verksmiðju sinni í Samron í Tælandi. Fyrstu bílarnir eru væntanlegir á helstu markaði í haust, þar með talið til Íslands.
Isuzu D-MAX EV verður fyrsti fjöldaframleiddi rafdrifni pallbíllinn á heimsmarkaði í þessum stærðarflokki sem búinn er fjórhjóladrifi.
Athygli vekur að hinn alrafmagnaði Isuzu D-MAX EV gefur í engu eftir í samkeppni við bróður sinn, hina nýju kynslóð dísilknúna pallbílsins D-MAX, er varðar drif- og dráttargetu enda er D-MAX EV aldrifinn og með 3,5 tonna dráttargetu.
Forsenda þessarar miklu dráttargetu og rúmlega eins tonna burðargetu á palli eru m.a. 66,9 kWh rafhlaða og öflugir 140 kW rafmótorar á nýlega hönnuðum e-öxlum (e-Axles). Saman skila mótornarnir 325 Nm togkrafti.
Eigin þyngd pallbílsins er 2.350 kg. Engu að síður er drægni D-MAX EV allt að 361 km við bestu aðstæður og er pallbíllinn því fyllilega hannaður til að mæta bæði kröfum notenda atvinnu- og heimilisbíla sem vænta svipaðra afkasta og gerð er krafa um til pallbíla almennt.
Hleðslutími í AC stöð frá 0-100% er um tíu klukkustundir og um ein klukkustund frá 20-100% í DC-hleðslustöð. Isuzu útilokar ekki að framleiðandinn bjóði síðar aðrar útgáfur af D-MAX, svo sem tvinn- og tengiltvinnútfærslur, enda fari það fyrst og fremst eftir kröfum markaðarins, þar sem notagildið er mismunandi. Isuzu kynnti D-MAX EV pallbílinn fyrst á alþjóðlegu bílasýningunni sem haldin var í Bangkok í Taílandi í mars síðastliðnum.