Willum Þór Willumsson á sex ára atvinnumannaferil að baki í Belarús, Hollandi og Englandi. Síðastliðið sumar færði Willum sig um set til Englands, til Birmingham City í ensku C-deildinni, eftir að hafa leikið vel með Go Ahead Eagles í Hollandi tímabilin 2022/23 og 2023/24.
Birmingham hafði tímabilið á undan fallið niður um deild, úr B-deild í C-deild, og var Chris Davies ráðinn þjálfari liðsins síðastliðið sumar. Þrátt fyrir að vera einungis 39 ára gamall hefur Davies unnið við þjálfun í tæpa tvo áratugi.
Davies var Brendan Rodgers til aðstoðar hjá Swansea City á árunum 2010-2012 og fylgdi Rodgers til Liverpool árin 2012- 2015. Hjá Swansea og Liverpool greindi hann andstæðinga liðsins og var Rodgers til aðstoðar í taktík.
Hann var síðan ráðinn aðstoðarþjálfari Rodgers hjá Celtic á árunum 2016-2019 og fylgdi honum til Leicester og var þar aðstoðarþjálfari árin 2019-2023. Það árið tók hann síðan við sem aðstoðarþjálfari Tottenham Hotspur, undir stjórn Ange Postecoglou.
„Hann er geggjaður þjálfari og er með mjög mikið „passion“ fyrir þessu, maður sér það. Hann er „all in“, ungur og með mikla orku. Hann vill dóminera leikina og leggur mikla áherslu á að við pressum liðin út um allan völl,“ segir Willum.
Það má segja að honum sé að takast að fá liðið til að dóminera leiki en Birmingham er með langhæsta „average possession“ af öllum liðum í fjórum efstu deildum Englands, eða upp á 68%.
Mælikvarðinn segir til um hversu vel lið heldur boltanum innan liðs meðan á leik stendur yfir.
Willum hefur spilað 25 leiki fyrir Birmingham þegar þetta er skrifað. Þar af hefur hann leikið 20 leiki í deild, skorað 5 mörk og lagt upp 5 til viðbótar.
„Við spilum mjög skemmtilegan sóknarfótbolta og höldum mikið í boltann. Ég held mikið upp á hann [Davies] og tel að við eigum eftir að sjá hann þjálfa lið í ensku úrvalsdeildinni seinna meir, og vonandi verður það Birmingham.“
Willum segir „Ange-takta“ í hugmyndafræði Davies.
„Þetta er svipuð hugmyndafræði, útfærsla af 4-3-3 en mjög flæðandi. Hann vill ýta varnarlínunni upp á miðju og pressa liðin hátt upp á vellinum.“
Nánar er rætt við Willum í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út 30. desember. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og viðtalið í heild sinni hér.