Heimsmeistaramótið í knattspyrnu (HM) verður haldið í Katar eftir tæpa tvo mánuði, en um er að ræða stærsta íþróttaviðburð ársins. Argentínu er spáð ágætis gengi á mótinu, eins og á flestum mótum, en einn allra besti knattspyrnumaður heims, Lionel Messi, spilar fyrir liðið.

Í Argentínu er áralöng hefð fyrir því að safna HM límmiðum fyrir hvert mót sem haldið er á fjögurra ára fresti. Nú er hins vegar sú staða komin upp að skortur er á límmiðunum í landinu. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Nú í vikunni fundaði viðskiptaráðherra Argentínu með ítalska límmiðaframleiðandanum Panini SpA og söluaðilunum sem sjá um sölu á límmiðunum.

Panini segir að eftirspurn eftir HM í ár sé 40% meiri en fyrir mótið 2018. Það sé töluvert væntingar og framleiðslu fyrirtækisins, samkvæmt argentíska dagblaðinu La Nacion. Á sama tíma segja söluaðilar límmiðanna að Panini hafi einfaldlega ekki útvegað þeim nægt framboð límmiða.

Samkvæmt umfjöllun La Nacional er áætlað að það kosti um 133,5 þúsund pesóa, eða um 130 þúsund krónur, að fylla eitt límmiðaalbúm með límmiðum. Einn límmiðapakki kostar um 150 pesóa, eða um 146 krónur, en í kjölfar skortsins hafa vinsældir falsaðra límmiða aukist að undanförnu.