Sjaldgæfar íþróttaminjar, körfuboltaskór og lúxusbílar í eigu kanadísks frumkvöðuls fóru á uppboð um helgina hjá RM Sotheby‘s en safnið var metið á 60 milljónir dala. Eigandinn, Miles Nadal, byrjaði að safna sjaldgæfum minjum fyrir nokkrum áratugum síðan.

Meðal þess sem fór á uppboð var kappakstursbúningur áritaður af Michael Schumacher og fimm rauðir Ferrari-bílar.

Í viðtölum við fjölmiðla sagði Nadal að hann vildi selja hluta af safni sínu til að losa um pláss og að hann myndi gefa allan ágóða til góðgerðarmála. „Ég er 66 ára, mig langar að njóta ágóðans af því sem ég hef safnað og gera heiminn að betri stað.“

Safnið hans innihélt einnig sjaldgæft par af Moon Shoe-skóm frá Nike sem Nadal keypti fyrir 437.500 dali árið 2019. Hann á þar að auki upprunalega Air Jordan-skó sem voru áritaðir af körfuboltahetjunni sjálfri og annað Nike-skópar sem var búið til eftir að kvikmyndin Back to Future kom út en aðeins 89 pör af þeim skóm voru framleidd.

Bílaáhugamenn munu líklegast kannast við einhverja af þeim bílum sem voru á uppboði, eins og Ferrari: 288 GTO, F40, F50, Enzo og LaFerrari. McLaren P1 2015 var einnig á boðstólum en aðeins 350 stykki af þeim bíl eru til í heiminum.

Nadal var eitt sinn launahæsti forstjórinn í Kanada en er stofnandi og forstjóri Peerage Capital. Hann hefur mikinn áhuga á góðgerðarmálum og hefur stofnað marga góðgerðarsjóði, sérstaklega fyrir börn til að geta átt bjartari framtíð.