Ósk Heiða Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Póstinum. Á hennar sviði eru sala, markaðsmál, þjónustuver, upplifun viðskiptavina og vefmál.

Hún hefur gaman af bílum eins og flestir og rifjar hér upp skemmtilegar sögur tengdar bílum og bílferðum.

Hvít Opel Corsa var fyrsti bíll Óskar.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

Verð nú eiginlega að segja fyrsti bíllinn minn, lítil hvít Opel Corsa.

Þrátt fyrir að tilheyra þeirri kynslóð fólks sem keypti sér bíl um leið og það fékk bílpróf keypti ég mér ekki bíl fyrr en ég var komin yfir tvítugt. Ég var nefnilega að spara fyrir námi, íbúðarkaupum og mögulegu sem 17 ára manneskja sem fæddist miðaldra sá fyrir sér að þurfa að nota peninga í.

Frelsið sem fylgdi litlu Corsunni minni var þónokkuð, laus við strætó eða að fá far og ég man að mér fannst mjög skrýtið að selja hana þegar ég fór til Kaupmannahafnar í mastersnám

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?

Torfæru, allan daginn. Smá bras og vesen, drulla, aksjón og fjör. Það hljómar eins og eitthvað einmitt fyrir mig. Ég gæti alveg hugsað mér að prófa.

Ósk væri glöð til í að vera keyrð um á Audi Q8.

Hver er draumabíllinn?

Eru Audi Q8 bílarnir sem fluttir inn fyrir leiðtogafundinn á lausu? Það gæti alveg verið eitthvað, en best væri ef bílstjóri fylgir með.

Það gæti alveg hentað mér stórvel að hafa einkabílstjóra. Ég gæti þá sungið í aftursætinu og byrjað að skrifa sjálfshjálparbók fyrir önnum kafið fólk sem elskar kaffi, kraðak og pallíettur en langar að rækta sitt eigið grænmeti og kunna að meta jóga.

Fleiri bílasögur frá Ósk má lesa í blaðinu Bílar sem kom út 26.maí. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.