Í ræðu sinni í mars árið 2000 fagnaði þáverandi forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, yfirvofandi inngöngu Kína inn í Alþjóðaviðskiptastofnunina. Clinton var þá sérstaklega spenntur fyrir loforði kínverskra stjórnvalda um opnun á fjarskiptamarkaðnum.
Á næstu árum þróaði kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei þau verkfæri sem myndu hjálpa við að gera Kína að öflugasta eftirlitsríki heims.
Tækniframfarir Huawei og ört vaxandi sala fyrirtækisins fóru síðan að ógna tækniyfirráði Bandaríkjanna og öðrum alþjóðlegum stofnunum. Í bókinni sinni, House of Huawei, fer höfundurinn Eva Dou yfir sögu Huawei og hvernig það varð öflugasta fyrirtæki Kína.
Huawei var stofnað í borginni Shenzhen árið 1987 af Ren Zhengfei. Hann var fyrrum verkfræðingur í kínverska hernum en nýja fyrirtækið hans sá fyrst um að setja saman hliðræna símrofa sem afritaðir voru frá öðrum kínverskum framleiðendum.
Þegar fyrirtækið fór að þróast meira byrjuðu vörur þess að líkjast eftirlíkingum frá AT&T og áður en langt um leið fór fyrirtækið Cisco í mál við Huawei vegna eftirlíkingar á rofum þeirra.
House of Huawei inniheldur ekki margt sem ætti að koma lesendum á óvart en að sögn WSJ er bókin vel skrifuð og mjög fræðandi. Bókin er talin vera með betri frásögnum af risi Kína og er lestrinum líkt við mikilvæga varúðarsögu.