Á þessu ári verða 500 ár liðin frá hámarki þýsku bændauppreisnarinnar en hún var sú stærsta sem sést hafði í Vestur-Evrópu fyrir frönsku byltinguna árið 1789. Í tilefni af því hefur prófessorinn Lyndal Roper gefið út bók sem fer vandlega í saumana á atburðunum.
Bókin Summer of Fire and Blood fjallar um byltingu sem átti sér stað árið 1525 á mörgum svæðum sem í dag eru staðsett í Þýskalandi.
Á þeim tíma fengu fátækir bændur innblástur frá Marteini Lúther sem hvatti fólk til að sameinast og steypa höfðingjum sínum af valdastóli. Margir hópar tóku kastala með valdi og gerðu einnig tilkall til eignarhluta kaþólsku kirkjunnar.
Byltingin endaði hins vegar mjög illa fyrir bændurna þegar vopnaðir riddarar sameinuðust og börðu niður uppreisnina. Riddararnir, sem voru ýmist kaþólikkar eða mótmælendur, ákváðu að leggja sínar trúarlegu ádeilur til hliðar og sameinast gegn sameiginlegum óvini.
WSJ hefur nýlega tekið þessa bók fyrir og segir að það sé varla til fræðimaður í heiminum sem þekkir þessa sögu betur en Lyndal Roper. Hún starfar sem prófessor í sagnfræði við Oriel-háskóla í Oxford og útskýrir meðal annars hvernig Marteinn Lúther náði að koma byltingunni af stað með skrifum sínum árið 1517.
Þar hafði hann lagt áherslu á guðfræðilegt frelsi og var hann í raun sá fyrsti til að kynna hugmyndina um frelsi kristins manns. Í ritgerðum sínum sá Marteinn Lúther fyrir sér þýska þjóð þar sem prestar fengju ekki að tilheyra sérstakri stétt. Þess í stað yrði setning hans Wir alle gleich priester sein, eða við erum öll prestar, hin þekkta leið fyrir trúuðu þjóðina.