Allir geta verið sammála um að það er mikilvægt að drekka nógu mikið af vatni og auðveld leið til að gera það er að hafa drykkjarílát við höndina yfir daginn. Í raun er hægt að nota hvaða ílat sem er á skrifborðinu en ein tegund hefur breyst í æði meðal Bandaríkjamanna.
Stanley Adventure Quencher Travel Tumbler er af einhverri ástæðu orðið uppáhaldsdrykkjarílát Internetsins en þessi flaska getur rúmað meira en lítra af vatni og heldur því köldu í marga klukkutíma.
Vinsældir flöskunnar eru orðnar það alvarlegar að níu ára stelpa í Ohio var nýlega lögð í einelti eftir að hafa mætt í skólann með ódýrari útgáfu sem kostaði um 10 dali í Walmart en þessi umrædda flaska kostar um 45 dali.
Myndbönd á samfélagsmiðlum hafa undanfarnar vikur sýnt heilu raðirnar af fólki fyrir utan verslanir Target, bíðandi eftir því að geta fjárfest í þessari flösku sem var jafnframt ein vinsælasta jólagjöfin fyrir 2023.
Fyrirtækið Stanley var stofnað árið 1913 og hefur verið þekkt fyrir að framleiða áreiðanleg matar- og drykkjarílát. Viðskiptavinir urðu víst ástfangnir af þessari flösku en hún hefur líka notið mikilla vinsælda frá áhrifavöldum á samfélagsmiðlum.
„Ég verð að viðurkenna, ég var frekar hikandi á að taka þátt í þessu Stanley Quencher æði fyrst. Nú er ég með eina flösku heima hjá mér og eina í vinnunni. Flaskan hjálpar mér að svala þorstanum og þar sem hún er svo stór þá er lítil þörf á að fylla hana aftur,“ segir Kamari Stewart, prófverkalesari í Bandaríkjunum.