Breski lúxusbílaframleiðandinn Bentley hefur í 106 ára sögu sinni verið þekktastur fyrir fagra lúxusbíla með aflmiklum bensínvélum. Í takt við breytta tíma hyggst Bentley nú færa sig yfir í rafmagnið eins og langflestir bílaframleiðendur hafa gert.
Bentley hefur nú kynnt nýjan hugmyndabíl sem er 100% raknúinn. Sá ber heitið Bentley EXP 15 og verður fyrsti rafbíll breska lúxusbílaframleiðandans. Hönnunin er djörf og ber vott um nýja tíma hjá Bentley.
Bíllinn er þriggja dyra og afar nútímalegur í hönnun. Grillið er mjög kraftalegt og vélarhlífin mjög löng. Þunn framljósin vekja einnig eftirtekt en þau ramma inn hið volduga grill bílsins. Ljóst þykir að Grand Tourer bílar framleiðandans frá fyrri hluta 20. aldar hafi veitt hönnuðum Bentley innblástur fyrir hinn nýja EXP 15.
Innanrýmið er einnig afar framúrstefnulegt. Innandyra eru einungis þrjú sæti. Hefðbundið ökumannssæti og farþegasæti þar fyrir aftan en hins vegar er ekkert farþegasæti frammí. Hinn heppni farþegi þeim megin afturí fær því gríðarlegt fótapláss. Ekki bara það heldur snýst sætið í 45 gráður og því auðvelt að fara inn og út úr bílnum. Mikill lúxus er í innanrýminu eins og framleiðandinn er þekktur fyrir í bílum sínum.
Bentley hefur tilkynnt að fyrirtækið komi með Urban Luxury sportjeppa á markað árið 2026. Hann verður einnig 100% rafknúinn. Þá hefur Bentley lýst yfir að lúxusbíllinn Mulsanne komi á markað árið 2030. Bílarnir verða smíðaðir í verksmiðjum Bentley í borginni Crewe sem er í Cheshire í Englandi.