Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir seldi þakíbúð sína í Brooklyn hverfinu í New York-borg á 6 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 768 milljónum króna miðað við gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal er salan fór í gegn. Samkvæmt gögnum í fasteignaskrá New York-borgar var gengið frá sölunni í lok mars á síðasta ári.
Rúmlega fjögur ár eru síðan fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því að Björk hafi setti íbúðina á sölu. Uppsett verð var 9 milljónir dala og sagði m.a. í frétt Variety um málið að verðið þætti „ansi metnaðarfullt“. Björk keypti íbúðina árið 2009 ásamt þáverandi maka sínum, listamanninum Matthew Barney, fyrir um 4 milljónir dala, eða sem nemur um 571 milljón króna á núvirði. Björk og Barney voru saman frá aldamótum til ársins 2013. Árið 2015 keypti Björk hlut Barney í íbúðinni á rúmlega 1,6 milljónir dala, sem nemur um 228 milljónum króna á núvirði.
Íbúðin er 280 fermetrar að stærð. Í henni eru fjögur svefnherbergi og jafn mörg baðherbergi, auk verandar sem nær allan hringinn með útsýni yfir Brooklyn og neðri hluta Manhattan.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.