Leikarinn Brad Pitt hefur keypt rúmlega aldargamalt hús við vatnsbakkann á Carmel Highlands svæðinu í Kaliforníu fyrir 40 milljónir dala eða sem nemur 5,5 milljörðum króna. Fasteignasalar segja að um sé að ræða ein dýrustu kaup í sögu Carmel svæðisins, að því er kemur fram í frétt Wall Street Journal.

Húsið hafði verið í eigu Searock, hlutafélags sem tengdist hinum fræga fjárfesti Joe Ritchie sem stofnaði fjárfestingarfyrirtækið Fox River Partners. Ritchie lést fyrr á þessu ári.

Fasteignin, sem er þekkt sem D.L. James húsið, var byggð árið 1918. Það var hannað af arkitektinum Charles Sumner Greene sem var þekktur talsmaður bandarísku lista- og handverkshreyfingarinnar. Pitt er sagður vera áhugamaður um byggingarlist og aðdáandi handverkshúsa (e. Craftsman-style homes).