Toyota Land Cruiser 250 tók við af 150 bílnum. Þetta er fimmta kynslóðin í þessari línu en hún kom fyrst á markað árið 1985 með 70 bílnum.
Jeppanum var ekki breytt heldur bylt. Við smíði hans er horft til baka, farið í upprunann í bland við nútímahönnun. Með því geta meira að segja bílar öðlast sál.
Við höfum fengið að keyra hinn nýja Land Cruiser 250 í hálöndum Skotlands og við íslenskar aðstæður. Eftir þau ævintýri töldum við fullvíst að jeppinn yrði metsölubíll og það reyndist rétt.

Áhuginn á breyttum jeppum
Íslendingar eru sérstakir áhugamenn um að hækka jeppa og stækka dekkin undir þeim. Mörg umboðanna bjóða uppi á minni breytingar. Til að mynda býður Toyota umboðið upp á 33 og 35 tommu breytingar og kostar sú ódýrasta 650 þúsund krónur.
Ef menn vilja enn stærri breytingar er hægt að ræða málið við sérfræðingana hjá Arctic Trucks. Þar má til dæmis fá 37 tommu breytingu á Krúserinn. Sú breyting kostar um fjórar milljónir.

35 tommu breytingin
Land Cruiser er laglegur en líkt og aðrir bílar mislaglegur eftir litum og felgum. Þegar hann er kominn á 35 tommurnar er hann mun vígalegri og tilbúinn í stríð við náttúruöflin.