Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur gefið út farsímaleikinn EVE Galaxy Conquest en leikurinn var fyrst kynntur á EVE Fanfest-hátíðinni í Reykjavík í fyrra. Leikurinn hefur nú verið gefinn út fyrir bæði Apple- og Android-síma og spjaldtölvur.
EVE Galaxy Conquest var þróaður á starfsstöð CCP í Shanghai og gerist í sama söguheimi og EVE Online, fyrsti tölvuleikleikur CCP, sem leit dagsins ljós árið 2003.
„Engin bein tenging er þó á milli leikjanna tveggja og býður sjálfstæð leikjaupplifun Galaxy Conquest upp á nýja tengingu við EVE leikjaheiminn í gegnum farsíma. Leikurinn gengur út á hraðvirka atburðarás þar sem þátttakendur geta náð völdum og árangri með stjórnun auðlinda, diplómatíu og stríðsátökum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
CCP var stofnað í Reykjavík árið 1997 og starfrækir einnig starfstöðvar í London og Shanghai en um 432 einstaklingar frá 29 löndum starfa hjá fyrirtækinu.