Í bandarísku forsetakosningum, sem og öðrum kosningum, þarf gjarnan að leggja mat á vafaatkvæði, í þeirri viðleitni að túlka vilja kjósandans. Gary Tuchman, fréttamaður CNN , var staddur á talningarstöð í Atlanta, Georgíu, í gærkvöldi, hvar nú ríkir mikil eftirvænting eftir niðurstöðu vegna naums forskots Trumps á Biden, sem gæti hæglega unnið dramatískan sigur í ríkinu, og þar með náð kjöri.
Tuchman sagði frá því hvernig flest vafaatkvæði á talningarstöðinni hafa komið til af ásetningi fremur en mistökum, og að algengt væri að sjá „Donald Duck", þ.e. Andrés Önd, ritaðan á atkvæðaseðla.
Það kann að koma einhverjum á óvart að Andrés Önd hefur raunar verið fyrirferðarmikill í stjórnmálum í gegnum tíðina. Þannig rataði atkvæði merkt honum fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna árið 1992, þar sem tekist var á um hvort atkvæðaseðillinn skildi telja í ríkiskosningum Hawaii.
Árið 2002, sló Andrés Önd bæði George W. Bush og Al Gore við í umdeildri kosningu um svæðisstjóra í stjórn Marion Soil and Water Conservation Board í Salem, Oregon. Þetta kom fram í frétt ABC frá árinu 2006.
Starfið var raunar launalaust og enginn bauð sig fram. 4.570 manns skiluðu skriflegu atkvæði vegna embættisins og hlaut Andrés Önd langflest atkvæðanna, en sigur hans reyndist þó ógildur. Næstur á eftir honum var Al Gore með 23 atkvæði og féll sigurinn honum í skaut.
Vinsæll í norrænum stjórnmálum
Í þingkosningum í Finnlandi og Svíþjóð hefur Andrés Önd einnig notið töluverðar hylli. Í Finnlandi hefur Andrés Önd, eftir því sem næst verður komist, ávallt staðið uppi sem sigurvegari svo kallaðra mótmælaatkvæða.
Í Svíþjóð hefur Andrésar Andar flokkurinn reglulega fengið flest atkvæði allra flokka sem ekki hafa forprentaða atkvæðaseðla. Árið 1991 hlaut flokkurinn 1.535 atkvæði og varð sá níundi á lista yfir vinsælustu stjórnmálasamtökin í Svíþjóð.
Heimildir herma að Andrés Önd hafi í gegnum tíðina hlotið stöku atkvæði í íslenskum kosningum, en þau hafi haldrei dugað honum til sigurs á harðasta kjarna stuðningsmanna Davíðs Oddssonar, sem kýs hann alltaf án nokkurs tillits til þess hvort hann sé á kjörseðli, eða hvað sé yfir höfuð verið að kjósa um.
Aðrar heimildir herma að Andrés Önd hafi komið fyrir á undirskriftalista um synjun staðfestingar forseta lýðveldisins á fjölmiðlalögum á sínum tíma. Andrés Önd lætur því til sín taka á vettvangi stjórnmálanna hér á landi, sem annars staðar.
Margur furðufuglinn hefur í gegnum tíðina ratað á svið stjórnmálanna, og jafnvel náð árangri. Að því virtu eru vinsældir Andrésar Andar ef til vill ekki svo langsóttar.
Uppfært: Áður kom fram að ekki lægi fyrir hvort Andrés Önd hefði hlotið atkvæði í íslenskum kosningum, það hefur nú fengist staðfest að svo sé.