Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn, segir að fyrirtækið sé nú að mæta aukinni þörf viðskiptavina sem vilji ferðast til nýrra áfangastaða, auk hefðbundinna áfanagastaða sem fyrirtækið býður upp á.

Hún segist hafa fundið fyrir töluverðri eftirspurn eftir siglingarferðum og ferðum til Asíu.

„Það er alltaf fólk sem er að stökkva á svona ferðir. Það bara nennir ekki veðrinu hér og skammdeginu. Munurinn hjá okkur er kannski sá að við erum með mjög fjölbreytta þjónustu og erum við mikið af sérferðum. Við förum mikið til Taílands og svo er golfið líka allan ársins hring.“

Úrval Útsýn verður þar að auki með nýja nýársferð eftir áramót þar sem farið verður til Punta Cana í Karíbahafinu. Þar verður flogið beint til Dóminíska Lýðveldisins þar sem Punta Cana er og er veðrið þar nokkuð stöðugt allan ársins hring.

„Þú bara finnur ekki betra hitastig og loftslag á þeim tíma en í Punta Cana. Það er bara draumur í dós að vera þarna.“

Þórunn segir að eftirspurnin hafi aukist verulega í skíðaferðum en Úrval Útsýn flýgur til Verona í byrjun hvers árs. Eftirspurnin eftir ferðum til Bandaríkjanna hefur hins vegar minnkað og segir Þórunn það vera bæði vegna gengisbreytinga og mikils kostnaðar.

„En með Karíbahafið þá ertu að fá meira fyrir peninginn og þegar við segjum allt innifalið þá eyðir þú varla krónu umfram nema að fara í skoðunarferðir og eitthvað slíkt. Þar er bæði matur og drykkur innifalinn og mjög góður fjöldi veitingahúsa.“