Þegar lík Rudolfs Diesel, uppfinningamannsins sem fann upp dísilvélina, fannst í sjónum var það óþekkjanlegt. Það var meira að segja svo illa útlítandi að sjómennirnir á skipinu lögðu ekki í að taka það um borð. Diesel hafði þá verið á ferðalagi með skipi til Bretlands og annað hvort kastað sér frá borði eða verið kastað frá borði.

Líklegast þykir að hann hafi framið sjálfsmorð en þó eru ekki allir einróma um þá söguskýringu. Dauði hans hefur verið efniviður margra samsæriskenninga en þær þekktustu tengjast stríðrekstri og olíurisum.

Rudolf Diesel heillaðist sem ungur maður í námi, í kringum árið 1870, að varmafræðum. Á þeim tíma knúði gufuvélin áfram verksmiðjur og járnbrautir en mest allur innanbæjarflutningur fór fram með hestum. Í 500 þúsund manna borg mátti finna um 100 þúsund hesta að jafnaði.

Þegar pestir lögðust á hesta gat allur flutningur lagst tímabundið af og því var mikið kapp lagt á að leysa hestinn af hólmi. Þær aflvélar sem þá voru til voru þó óhagkvæmar því þær nýttu varmaorkuna sem kom frá bruna kola eða bensíns afar illa og voru aðeins með um 10% nýtingu. Diesel setti sér það markmið að þróa vél sem gæti nýtt alla varmaorkuna (sem er fræðilega hægt þó það hafi ekki enn tekist). Þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist ætlunarverkið tókst honum að bæta nýtingu varmaorkunnar þannig hin nýja vél nýtti 25% af hinu fræðilega hámarki (bestu dísilvélarnar geta í dag náð meira en 50% nýtingu). Það markaði tímamótaskref og Rudolf Diesel hóf sölu á vélunum.

Diesel áfram að þróa vél sína og náði sífellt betri nýtni. Jafnframt komu fleiri kostir í ljós. Vélin gat notað olíu sem þurfti ekki að vinna jafn mikið og bensín, það eldsneyti tók síðar nafn Diesel og er það sem við þekkjum í dag sem dísilolía. Að sama skapi var minni hætta á að vélin kveikti í út frá sér sem gerði hana ákjósanlega fyrir flutning hernaðargagna.

Það var þó sá hængur á þeim að í árdaga voru þær ekki sérstaklega endingargóðar og höfðu háa bilunartíðni. Þeim var því skilað í hrönnum og endurgreiðslukröfurnar vógu þungt á herðum Diesels. Áður en Diesel hélt í hina örlagaríku ferð til Bretlands hafði hann safnað öllu því fé sem hann komst yfir og sett það í stóran poka ásamt yfirliti yfir skuldir sínar. Pokann gaf hann eiginkonu sinni og bað hana um að opna hann ekki fyrr en að viku liðinni.

Kemur þá að fyrri samsæriskenningunni en árið 1913 var farið að sjá fyrir að fyrri heimstyrjöldin væri að skella á. Þjóðverjinn Diesel, var þá á leið til Breta og töldu margir að hann hyggðist selja þeim einkaleyfin fyrir uppfinningu sinni. Eitt dagblað í Bretlandi velti því upp að þess vegna hefði honum verið kastað fyrir borð, myrtur, til þess að koma í veg fyrir að Bretar gætu nýtt sér dísilvélina í styrjöldinni.

Síðari samsæriskenningin sem hefur notið vinsælda snýr að samkeppni hráolíu við aðrar tegundir eldneytis. Á þessum tíma var ekki endilega ráðið, hvaða aflgjafi yrði ofan á samkeppni. Hagfræðingar hafa bent á að slík þróunarferli geti verið sjálfsstyrkjandi. Fjárfestingar í þróun og betrumbótum á tiltekinni vöru eða ferli geti orðið til þess að það verður of dýrt að skipta um tækni sem allir eru þegar farnir að nota. Þannig dettur fæstum í hug að dísilvélin geti verið knúin öðru en dísilolíu í dag, það var hins vegar ekki nauðsynlegt því Rudolf Diesel hannaði vélina gat hún verið knúin mörgum aflgjöfum.

Þegar Rudolf Diesel hóf að tala fyrir því að hnetuolía, kolaryk eða grænmetisolía myndi taka fram úr hráolíu sem aflgjafi díselvélarinnar má geta sér til um að olíuframleiðendur hafi ekki verið ánægðir. Upp úr þessu hafa sprottið kenningar um að erindrekar olíuhaghafa, hafi nýtt tækifærið til þess að þagga niður í Diesel á leið sinni til Bretlands.

Eftir sem áður þykir þó flestum líklegast að skuldirnar og tilhugsunin um að geta ekki endurgreitt þær hafi orðið til þess að Rudolf Diesel hafi ákveðið að binda enda á líf sitt. Rudolf Diesel sá því ekki vél sína ná almennri útbreiðslu í skipum og öðrum þungaflutningum eftir síðari heimsstyrjöld. Nafn hans lifir þó áfram og er tengt órjúfanlegum böndum við þessa tímamótauppgötvun sem hefur svo sannarlega sett mark sitt á nútímahagkerfið.

Umfjöllunin er unnin upp úr hlaðvarpi BBC – 50 Things That Made Modern Economy ásamt öðrum heimildum.

Þegar lík Rudolfs Diesel, uppfinningamannsins sem fann upp dísilvélina, fannst í sjónum var það óþekkjanlegt. Það var meira að segja svo illa útlítandi að sjómennirnir á skipinu lögðu ekki í að taka það um borð. Diesel hafði þá verið á ferðalagi með skipi til Bretlands og annað hvort kastað sér frá borði eða verið kastað frá borði.

Líklegast þykir að hann hafi framið sjálfsmorð en þó eru ekki allir einróma um þá söguskýringu. Dauði hans hefur verið efniviður margra samsæriskenninga en þær þekktustu tengjast stríðrekstri og olíurisum.

Rudolf Diesel heillaðist sem ungur maður í námi, í kringum árið 1870, að varmafræðum. Á þeim tíma knúði gufuvélin áfram verksmiðjur og járnbrautir en mest allur innanbæjarflutningur fór fram með hestum. Í 500 þúsund manna borg mátti finna um 100 þúsund hesta að jafnaði.

Þegar pestir lögðust á hesta gat allur flutningur lagst tímabundið af og því var mikið kapp lagt á að leysa hestinn af hólmi. Þær aflvélar sem þá voru til voru þó óhagkvæmar því þær nýttu varmaorkuna sem kom frá bruna kola eða bensíns afar illa og voru aðeins með um 10% nýtingu. Diesel setti sér það markmið að þróa vél sem gæti nýtt alla varmaorkuna (sem er fræðilega hægt þó það hafi ekki enn tekist). Þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist ætlunarverkið tókst honum að bæta nýtingu varmaorkunnar þannig hin nýja vél nýtti 25% af hinu fræðilega hámarki (bestu dísilvélarnar geta í dag náð meira en 50% nýtingu). Það markaði tímamótaskref og Rudolf Diesel hóf sölu á vélunum.

Diesel áfram að þróa vél sína og náði sífellt betri nýtni. Jafnframt komu fleiri kostir í ljós. Vélin gat notað olíu sem þurfti ekki að vinna jafn mikið og bensín, það eldsneyti tók síðar nafn Diesel og er það sem við þekkjum í dag sem dísilolía. Að sama skapi var minni hætta á að vélin kveikti í út frá sér sem gerði hana ákjósanlega fyrir flutning hernaðargagna.

Það var þó sá hængur á þeim að í árdaga voru þær ekki sérstaklega endingargóðar og höfðu háa bilunartíðni. Þeim var því skilað í hrönnum og endurgreiðslukröfurnar vógu þungt á herðum Diesels. Áður en Diesel hélt í hina örlagaríku ferð til Bretlands hafði hann safnað öllu því fé sem hann komst yfir og sett það í stóran poka ásamt yfirliti yfir skuldir sínar. Pokann gaf hann eiginkonu sinni og bað hana um að opna hann ekki fyrr en að viku liðinni.

Kemur þá að fyrri samsæriskenningunni en árið 1913 var farið að sjá fyrir að fyrri heimstyrjöldin væri að skella á. Þjóðverjinn Diesel, var þá á leið til Breta og töldu margir að hann hyggðist selja þeim einkaleyfin fyrir uppfinningu sinni. Eitt dagblað í Bretlandi velti því upp að þess vegna hefði honum verið kastað fyrir borð, myrtur, til þess að koma í veg fyrir að Bretar gætu nýtt sér dísilvélina í styrjöldinni.

Síðari samsæriskenningin sem hefur notið vinsælda snýr að samkeppni hráolíu við aðrar tegundir eldneytis. Á þessum tíma var ekki endilega ráðið, hvaða aflgjafi yrði ofan á samkeppni. Hagfræðingar hafa bent á að slík þróunarferli geti verið sjálfsstyrkjandi. Fjárfestingar í þróun og betrumbótum á tiltekinni vöru eða ferli geti orðið til þess að það verður of dýrt að skipta um tækni sem allir eru þegar farnir að nota. Þannig dettur fæstum í hug að dísilvélin geti verið knúin öðru en dísilolíu í dag, það var hins vegar ekki nauðsynlegt því Rudolf Diesel hannaði vélina gat hún verið knúin mörgum aflgjöfum.

Þegar Rudolf Diesel hóf að tala fyrir því að hnetuolía, kolaryk eða grænmetisolía myndi taka fram úr hráolíu sem aflgjafi díselvélarinnar má geta sér til um að olíuframleiðendur hafi ekki verið ánægðir. Upp úr þessu hafa sprottið kenningar um að erindrekar olíuhaghafa, hafi nýtt tækifærið til þess að þagga niður í Diesel á leið sinni til Bretlands.

Eftir sem áður þykir þó flestum líklegast að skuldirnar og tilhugsunin um að geta ekki endurgreitt þær hafi orðið til þess að Rudolf Diesel hafi ákveðið að binda enda á líf sitt. Rudolf Diesel sá því ekki vél sína ná almennri útbreiðslu í skipum og öðrum þungaflutningum eftir síðari heimsstyrjöld. Nafn hans lifir þó áfram og er tengt órjúfanlegum böndum við þessa tímamótauppgötvun sem hefur svo sannarlega sett mark sitt á nútímahagkerfið.

Umfjöllunin er unnin upp úr hlaðvarpi BBC – 50 Things That Made Modern Economy ásamt öðrum heimildum.