Körfuboltaleikmaðurinn Kevin Durant, sem spilar fyrir Brooklyn Nets, hefur keypt lið í Major League Pickleball ásamt viðskiptafélaga sínum Rich Kleiman, í gegnum fjárfestingafélagið 35V. Þar að auki mun félag þeirra Kleiman og Durant verða samstarfsaðili deildarinnar, að því er kemur fram í grein hjá The Athletic.

Ekki virðist vera til íslenskt orð yfir bandarísku íþróttina Pickleball, sem var fundin upp árið 1965 á Bainbridge Island í Washington fylki. Íþróttin er sambland af tennis, badminton og borðtennis, en völlurinn er einungis þriðjungur af stærð tennisvallar.

Kleiman sagði í yfirlýsingu að 35V ætli að fjárfesta í framtíð íþrótta og hafa augun opin fyrir spennandi tækifærum. „Major League Pickleball er deild sem við erum ótrúlega spenntir fyrir,“ var haft eftir Kleiman. „Við getum ekki beðið eftir því að byggja þetta lið upp frá grunni og lyfta íþróttinni og deildinni upp í áður óþekktar hæðir.“

Durant er svo sannarlega ekki fyrsta NBA-stjarnan til að fjárfesta í íþróttinni og deildinni. LeBron James, leikmaður Lakers, Draymond Green, leikmaður Warriors, og Kevin Love leikmaður Cavaliers, hafa allir fjárfest í deildinni, auk NFL-goðsagnarinnar Tom Brady.