Rúmlega 1400 fermetra hús í bænum Vail í Colorado er nú komið á sölu fyrir 78 milljónir dala, eða um 11 milljarða króna. Húsið er það dýrasta í ríkinu og er staðsett á vinsælu skíðasvæði.
Seljendur eru Kevin Ness, líftæknifrumkvöðull í Colorado, og eiginkona hans, Stephanie Ness. Hjónin eiga saman fjögur börn og keyptu þau húsið árið 2020 fyrir 57 milljónir dala.
Samkvæmt WSJ hafa hjónin ákveðið að selja húsið vegna þess að þau nota það ekki eins mikið og þau höfðu vonast til. Hjónin, sem búa í borginni Boulder, keyptu upprunalega húsið til að geta notað það sem bústað.
Húsið þeirra í Boulder er einnig til sölu en verðið á því er 15 milljónir dala samkvæmt fasteignasíðunni Zillow.
Fasteignin er staðsett í aðeins nokkurra mínútna göngufjarlægð frá verslunum og veitingastöðum í miðbæ Vail. Það inniheldur 11 svefnherbergi og býður upp á stórkostlegt útsýni yfir Gore-fjöllin.
Hjónin eyddu þremur árum í framkvæmdum á húsinu og má þar einnig finna innilaug, tvær upphitaðar sundlaugar, tvo heita potta, tvö eldhús, tvær lyftur, kvikmyndahús og líkamsræktarstöð.