Dýrasta hús í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, sem lítur í raun meira út eins og kastali, hefur verið selt fyrir 15,85 milljónir dala, eða rúma 2,2 milljarða króna. Húsið er í 130 km fjarlægð frá Asheville og slapp því undan fellibylnum Helene í september.

Húsið er staðsett í Blue Ridge-fjöllunum í Norður-Karólínu í bænum Banner Elk og er 1254 fermetrar að stærð.

Þetta fimm svefnherbergja steinhús var skráð á 14 milljónir dala í september en söluupphæðin var hærri þar sem kaupandinn keypti það með teppum, húsgögnum og fornlistaverkum.

Seljandinn, Thomas Rouse, er annar stofnandi lækningatækjafyrirtækisins Berkshire Biomedical í Texas. Hann keypti 7,64 hektara lóðina ásamt eiginkonu sinni, Söndru Rouse, á 1,25 milljónir dala árið 2007. Hjónin byggðu svo húsið árið 2008.

Samningurinn var undirritaður um það leyti sem fellibylurinn Helene skall á í lok september. Húsið skemmdist þó ekki í óveðrinu en kaupsamningnum var þó frestað þar sem ekki var búið að koma rafmagninu aftur á.

Kaupandinn heimsótti þó húsið fljótlega eftir að stormurinn gekk yfir og ákvað að halda áfram með söluna eftir að hafa séð hversu fljótir viðbragðsaðilar voru að koma öllu í lag, bæði í kringum húsið og á golfvellinum skammt frá.