Tveir fjárfestar festu kaup á einni kampavínsflösku fyrir 2,5 milljónir dala eða sem nemur nærri 350 milljónir króna á föstudaginn síðasta. Sennilega er þetta dýrasta vínflaska í sögunni að því er kemur fram í frétt Wall Street Journal.
Virði flöskunnar má þó að litlu leyti rekja til kampavínsins sjálfs heldur öllu fremur þeirra stafrænu myndverka sem fylgja henni. Kaupendurnir fá svokölluð NFT (Non-Fungible-Token) skírteini sem tryggir þeim eignarhald á myndverkunum sem prentuð eru á flöskuna. Myndirnar eru af teiknimyndafígúrum, þar á meðal af apa, leðurblöku og vampíru.
Seljandinn, Champagne Avenue Foch, eignaðist NFT af myndverkunum fimm á sínum tíma fyrir 26,22 ether eða sem nemur 3,9 milljónum króna miðað við virði rafmyntarinnar í dag. Vegna ástands rafmyntamarkaðarins í dag ákváðu kaupendurnir að greiða fyrir kampavínsflöskuna með dölum.
Um er að ræða eins og hálfs lítra flösku af 2017 árgerð. Kampavínið er af Premier Cru þrúgunni, sem er lýst sem blöndu af Pinot Noir, Meunier og Chardonnay. Framleiðandi vínsins selur sambærilegt vín á 14,6 dali á flösku eða um 2 þúsund krónur.
Kaupendurnir eru ítölsku bræðurnir Giovanni og Piero Buono en fjölskylda þeirra á rætur sínar að rekja til tískuheimsins. Giovanni hóf að fjárfesta í rafmyntum frá árinu 2014 og hefur stofnað þrjú sprotafyrirtæki á síðustu sex árum. Hann vinnur nú hjá fyrirtækinu sínu Quota sem hyggst stafvæða húsaleigumarkaðinn í Suður-Evrópu. Piero vinnur í tískuiðnaðinum en hann stofnaði gleraugnalínuna Good‘s.
Bræðurnir segjast ekki ætla að ekki drekka kampavínið heldur horfa á vínflöskuna sem góða fjárfestingu. „Auðugt fólk mun leita að stöðum til að geyma auðæfi sín um nokkurn tíma – og það gæti verið í kampavíni sem fylgir með NFT“, er haft eftir Giovanni.