Þorsteinn Skúli Sveinsson starfar í mannauðsdeild Byko og er í framboði til formanns VR. Hann er giftur þriggja barna faðir og mikill bílaáhugamaður. Hann svarar hér nokkrum laufléttum spurningum varðandi bíla og eftriminnilegar bílferðir sem m.a. tengjast óléttu eiginkonunnar.
„Þegar ég var yngri lék ég mér endalaust með bíla og átti nóg af þeim. Eftir að ég eignaðist „alvöru“ bíla hef ég alltaf lagt mikið upp úr því að hugsa vel um þá og passa upp á að hafa þá hreina og fína,“ segir Þorsteinn Skúli.
Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?
„Ég er mikill aðdáandi Land Rover og uppáhaldsbíllinn minn hingað til innan þeirra raða er Range Rover Sport. Þegar við hjónin giftum okkur vorum við með hann sem brúðarbíl.“
Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir?
„Það er eiginkona mín! Hún er einstaklega flink að keyra og leggur sig mikið fram við að leggja bílnum fullkomlega í stæði, sérstaklega þegar ég er með henni, enda er ég með stæðafóbíu á hæsta stigi. Ég legg yfirleitt mjög langt frá öðrum bílum, helst í kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem ég er að fara á.“
En versti bílstjóri?
„Það var amma mín heitin. Hún var, með fullri virðingu, versti bílstjóri sem ég hef þekkt og hefði líklega aldrei átt að fá bílpróf. Til að toppa þetta allt saman ók hún á stórum amerískum „skriðdrekum“ sem þýddi bara eitt að bílarnir hennar voru alltaf með vel munstraðar hliðar.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?
„Þær eru nokkrar eftirminnilegar. Fyrir nokkrum árum var ég að keyra á eftir konunni minni á leiðinni í vinnuna. Hún var ófrísk af barni númer tvö á þessum tíma, og ógleðin var að fara alveg með hana. Allt í einu stöðvar hún bílinn og ég geri það sama. Ég ákvað að kanna hvað væri í gangi, en þá var hún búin að æla yfir bílsætið. Þetta endaði með því að ég þurfti að taka allan bílinn í gegn, leggja honum fyrir utan heima, þrífa allt upp og djúphreinsa hann síðar um daginn.
Það eru fleiri minnistæðar bílferðir tengdar óléttu og barneignum hjá okkur hjónum. Ég var að keyra konuna mína á fæðingardeildina um miðja nótt, stopp á rauðu ljósi á Snorrabrautinni, og bullandi hríð í gangi á sama tíma. Í útvarpinu var lagið Sólarsamba með Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni, lag sem hafði verið spilað eins og enginn væri morgundagurinn sumarið áður. Þetta fór frekar illa í konuna mína í miðjum hríðum á rauðu ljósi, enda hafði hún fyrr um daginn kvartað yfir því að þetta lag væri ofspilað á útvarpsstöðvum landsins. Ég var næstum búinn að henda mér út úr bílnum og láta mig hverfa," segir Þorsteinn Skúli og brosir.
„Önnur eftirminnileg saga af bílferð var þegar ég var lítill og sat ég í bíl hjá móður minni á Reykjanesbrautinni. Allt í einu datt annað afturdekkið undan bílnum, þaut þvert yfir veginn og hafnaði framan á stórum vörubíl. Sem betur fer urðu engin slys á fólki, en ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Síðar kom í ljós að nýlega hafði verið skipt um dekk á dekkjaverkstæði og rærnar höfðu ekki verið nógu vel hertar.“
Hvað hlustarðu helst á í bílnum?
„Oftast á morgnana á leið í vinnuna hlusta ég annað hvort á Bylgjuna eða Rás 2. Á öðrum tímum nenni ég sjaldnast útvarpi, þannig að þá blasta ég góðum lögum af Spotify.“
Hvort myndirðu keppa í kappakstri eða torfæru?
„Ég myndi keppa í torfæru. Því meiri drulla því betra.“
Hver er draumabíllinn þinn?
„Draumabíllinn er nýr Range Rover Sport. Stór, flottur og umhverfisvænn eins og hann á að vera.“
„Þessu vil ég breyta“
Þorsteinn Skúli er á fullu þessa dagana að undirbúa framboð sitt til formanns VR.
„Ég brenn fyrir því að bæta kjör félagsfólks VR. Sem þriggja barna faðir veit ég hversu mikilvæg forréttindi það eru að koma barni í öruggar hendur þegar fæðingarorlofi lýkur og mér finnst miður að allt of margir foreldrar eiga erfitt með að finna dagvistunarúrræði fyrir börn sín eftir það. Þessu vil ég breyta.
Varasjóðurinn hjá VR er mér einnig hugleikinn, þar sem ég vil breyta núverandi fyrirkomulagi og taka upp styrki í stað varasjóðs. Það er raunveruleg ósk félagsfólks VR, en því miður hafa talsmenn þess talað fyrir daufum eyrum. Þá vil ég einnig standa fyrir jöfnum réttindum félagsfólks VR miðað við hinn opinbera markað, þar sem felst í 30 daga orlofi og 36 stunda vinnuviku.
Síðast en ekki síst vil ég berjast fyrir því að þungaðar konur fái auka fjórar vikur við hefðbundinn veikindarétt, þannig að þær standa jafnt við karlmenn þegar þær koma úr fæðingarorlofi. Í stuttu máli vil ég meiri virðingu, réttlæti og jafnrétti fyrir félagsfólk VR," segir Þorsteinn Skúli.