Inga Tinna Sigurðardóttir hefur á síðustu árum skipað sér í fremstu röð frumkvöðla á Íslandi. Hún útskrifaðist úr verkfræði árið 2010 og hóf starfsferil sinn í eignastýringu og vöruþróun hjá Arion banka. Hún hefur alltaf haft mikla ástríðu fyrir nýsköpun og lausnum sem gera rekstur skilvirkari, en það var árið 2015 sem hún steig sín fyrstu skref í eigin rekstri með Icelandic Coupons. Í kjölfarið kviknaði hugmyndin að markaðstorginu Dineout. Nú hefur hún sett á laggirnar sitt nýjasta verkefni, Sinna.is, sem sameinar hugvit og tækni til að bæta þjónustugeirann.

Sinna.is er þróað með það að markmiði að búa til sérhæfðan vettvang fyrir þjónustuaðila í heilsu- og fegrunargeiranum. „Við erum með sterka reynslu úr veitingarekstri og höfum lært mikið um hvernig á að tengja viðskiptavini við þjónustuaðila á skilvirkan hátt. Okkur fannst vanta svipaðan vettvang fyrir aðra þjónustugeira þar sem fólk gæti auðveldlega fundið sérhæfða þjónustu sem hentar þeim.“

„Þessi þróun hefur tekið sjö ár og markmiðinu um að þróa 360 gráðu heildræna lausn hefur verið náð. Núna gengur þetta út á að selja vörurnar, viðhalda þeim og skala. Fyrsta skölunin er þjónustugeirinn þar sem við erum að nota þessar vörur sem við erum búin að þróa í mörg ár og aðlaga þær að þessum geira. Starfsfólkið er ómetanlegt og forritararnir sem eru sjö talsins eru á heimsmælikvarða – allt aðilar sem þurfti að hafa fyrir að ná til okkar í teymið. Við aðhyllumst það að vera færri og tefla á gæðin. “

„Við erum nú þegar komin í samstarf með 60 fyrirtækjum og einstaklingum og síðast þegar ég vissi þá voru 43 á bið að komast inn á torgið. Eftirspurnin hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Þetta eru allt frá hárgreiðslustofum og einkaþjálfurum til ljósmyndara og fyrirlesara. Fyrirtæki og mannauðsstjórar eiga líka að geta farið inn á síðuna og fundið eitthvað sem nýtist hjá þeim.“

Viðtalið við Ingu Tinnu er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út í dag.

Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.