Stephen Ross, eigandi Miami Dolphins, er að selja þakíbúð sína við Columbus Circle í New York fyrir 40 milljónir dala eða sem nemur 5,7 milljörðum króna, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.
Ross og þáverandi eiginkona hans, skartgripahönnuðurinn Kara Ross, settu íbúðina til sölu á 75 milljóna dala árið 2019. Söluverðið er því nærri helmingi lægra en þau vonuðust upphaflega eftir.
Ross hefur átt 790 fermetra þakíbúðina frá því að framkvæmdum á byggingunni lauk árið 2003. Ross er stofnandi og stjórnarformaður fasteignaþróunarfélagsins Related Companies, sem kom að framkvæmdum á byggingunni, sem hét áður Time Warner Center.
Íbúðin inniheldur fimm herbergi, timburklædda vinnustofu, bókasafn með bólstruðum veggjum og 13 metra langa stofu með útsýni yfir Central Park.
Hinn 82 ára gamli Stephen Ross eignaðist Miami Dolphins árin 2008-2009. Ross er í banni frá NFL-deildinni út 17. október næstkomandi fyrir að hafa átt í viðræðum við Tom Brady á meðan stórstjarnan var á samningi hjá New England Patriots og síðar Tampa Bay Buccaneers.