KK og Ellen gáfu árið 2005 út hugljúfa jólaplötu sem þau tóku upp í sumarbústað. Systkinin halda uppteknum hætti í ár með tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði og Fríkirkjunni í Reykjavík. „Árið 2005 var mikið um jólatónleika þar sem voru mikil læti og okkur fannst jólastemningin fara dálítið ofan garðs og neðan. Við tókum þá bara kassagítar með okkur í sumarbústað og tókum upp jólaplötu á lágværu nótunum. Við vorum mjög ánægð með útkomuna sem var svolítið svar okkar við þessu glysi. Okkur fannst vanta þessa hátíðlegu stemningu.“ segir KK.

„Út frá því fórum við að halda tónleika á þessum nótum og höfum gert síðan. Við byrjuðum í Bæjarbíói í Hafnarfirði sem þá var frekar „vintage“ – svolítið eins og við ímynduðum okkur tónlistina sem við vorum að gera – bara kerti og spil. Við byrjuðum þar og kannski endum við þar núna líka,“ segir KK.

„Þetta er orðið svolítið mikið kraðak. Ég hef alltaf tilhneigingu til að draga mig út úr þegar það verður of mikið kraðak. Ekkert ósvipað og þegar við gerðum þessa plötu á sínum tíma. Kannski verða tónleikarnir næst enn lágstemmdari ef maður gerir þetta á næsta ári. Kannski bara við systkinin tvö með kassagítar í kirkjum kringum landið,“ segir KK, en með þeim er nú lítil en skemmtileg hljómsveit. „Það er alltaf gott að eiga val og sumir kjósa hátíðarstemningu og lágværð og að geta komist burt úr látunum,“ segir KK.

Nýtt jólalag á hverju ári

Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson halda eina tónleika í ár og eru, ekki ósvipað KK og Ellen, frekar á rólegu nótunum. „Við erum bara með eina tónleika. Fyrstu tvö árin vorum við með tvenna en ákváð- um í fyrra að hafa bara eina. Við ákváðum það út frá tilfinningu, það er oft skemmtilegra að hafa bara eina tónleika,“ segir Sigríður. „Tónleikarnir eru bara rétt fyrir jólin á mánudegi.“ Sigríður segist finna fyrir því að margir sæki í lágstemmdari jólatónleika og leiti að upplifun sem sé kannski ekki ósvipuð því að fara í kirkju, sem tíðkaðist meira á árum áður. „Það er eins og fólk sé að leita í þessum yfirsnúningi að einhverri ró til að setja inn í hjartað sitt.“ Tónleikarnir eru byggðir í kringum jólaplötur sem þau gáfu út í hvort í sínu lagi. Á hverju ári er hins vegar frumflutt nýtt jólalag. „Okkur tókst að klessa saman nýju lagi á lokametrunum. Við fórum í stúdíó í lok nóvember og tókum upp skemmtilegt lag,“ segir Sigríður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .