Beta Reynis, einn fremsti næringarfræðingur landsins leggur mikla áherslu á heilsueflingu innan fyrirtækja þessa dagana ásamt því að hafa nýverið gefið út bókina Þú ræður.
Bókin er ætluð til þess að fræða fólk um aðferðir til þess að bæta efnaskipti og halda blóðsykri í lágmarki sem leiðir til bættrar heilsu og aukinnar orku.
Beta segir heilbrigðan lífsstíl vera flókið samspil margra þátta og vill aðstoða fólk til þess að taka ábyrgð á eigin heilsu.
Beta heldur út námskeiðinu Heildræn nálgun, en markmið námskeiðsins er að efla það starf sem Embætti landlæknis leggur áherslu á, það er að fyrirbyggja sjúkdóma og auka hreysti almennings. Heilsuefling innan fyrirtækja er skilgreind sem sameiginlegt átak vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins í heild til að efla heilsu og vellíðan einstaklinga á vinnumarkaði.
„Á vinnumarkaði eru u.þ.b. 83% allra einstaklinga á aldrinum 16-74 ára. Aukin þekking almennings á eigin heilsu og heilsutengdum lífsstíl ætti að skila sér í bættri heilsuhegðun. Með þessu má draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins og vinnumarkaðarins í formi færri veikindadaga og heimsókna á heilbrigðisstofnanir. Það þarf að útfæra heilsueflingu á vinnustöðum betur.“
Mikilvægi að taka ábyrgð á eigin heilsu
Tilgangur heildrænnar ráðgjafar á vinnustöðum segir Beta að sé að efla jákvæð viðhorf til þess að einstaklingar beri ábyrgð á eigin heilsu og andlegri vellíðan.
Það hefur sýnt sig að það að hlúa vel að starfsfólki á vinnustað hefur ekki bara góð áhrif á vinnustaðinn sjálfan heldur einstaklinginn, nærumhverfi s.s. fjölskyldu og samfélagið allt. Heilsuefling með aðstoð ráðgjafa getur aukið heilbrigði, dregið úr sjúkdómsbyrði og minnkað áhættu á sjúkdómum. Heilsa getur ekki verið alfarið á ábyrgð heilbrigðisgeirans. Mikilvægt er að virkja marga aðila í þjóðfélaginu til sameiginlegs átaks.“
Aðspurð í hverju ráðgjöfin felist segir Beta að meðal annars sé verið að benda á betri og gagnrýnni hugsunarhátt þegar kemur að lífsstíl og að einstaklingar sem fastir séu í viðjum vanans þurfi oft aðstoð við að brjóta upp venjur sem hafa neikvæð áhrif á heilsu og líðan. Bjóða þurfi upp á breytingar sem höfða til fólks og fá einstaklinga til að trúa betur á eigin getu og hæfni.
„Það að gera breytingar er sambland af lærdómi, núvitund, ástríðu og hæfni til að taka skrefið. Mikilvægt atriði í þessu ferli er aðgengi að jákvæðum og skiljanlegum upplýsingum og markmiðið er að benda á mikilvægi góðrar næringar og mataræðis til að draga úr streitu, bæta líðan og auka orku og drifkraft. Allt eru þetta þættir sem auka starfsánægju og færa einstaklingnum meiri almenna gleði og atorku, bæði í starfi og einkalífi. “
Forvarnir ein besta leiðin til árangurs
Beta segir að forvarnir skipti miklu máli og hvetur fólk til þess að skoða sína heilsufarssögu.
„Við erum oft föst í sama mynstrinu sem við vorum alin upp með og oft erfitt að komast úr viðjum vanans. Því er mikilvægt að nota vinnustaðinn sem vettvang til að læra meira um heilsu og mikilvægi hennar bæði andlega og líkamlega. Þetta má ekki vera enn eitt heilsuátakið í vinnunni. Það sem ég er að tala um er að efla heilsuna með þekkingu og fróðleik og fá einstaklingana í fyrirtækjum með mér í lið til að taka ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan.“
Aðspurð um hvað felist í góðri næringu segir Beta að það sé afar persónubundið en að mestu máli skipti að maturinn stuðli að vellíðan en ekki vanlíðan og mikilvægt sé að hlusta á þau skilaboð sem líkaminn gefi.
„Það er enginn eins og erfitt að ráðleggja eina ríkisleið. Sumir velja föstur og blómstra á meðan aðrir þurfa að borða sinn morgunmat. Hver og einn þarf að finna sitt jafnvægi. Mín skoðun er að við eigum að borða heilnæmari mat og sem mest úr okkar nærumhverfi. Finna út skammtastærðir og okkar jafnvægi, hver sé ákjósanlegasti skammturinn og hvaða samsetning. “
Viðtalið birtist í Eftir vinnu. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.