Nýr Honda Civic Hybrid verður frumsýndur á laugardaginn í Honda salnum hjá Bílaumboðinu Öskju sem verður einnig með öll nýjustu mótorhjólin frá Honda til sýnis á sama tíma.

Civic Hybrid er ellefta kynslóðin af bílnum og í fyrsta sinn sem hann er fáanlegur með hybrid aflrás en það eru einmitt 50 ár síðan Civic var fyrst kynntur til sögunnar.

Hybrid kerfið sem þróað var fyrir Civic er sett saman úr tveimur kraftmiklum rafmótorum, 2,0 lítra Atkinson-bensínvél með beinni innspýtingu, Li-ion rafhlöðu og nýjustu kynslóð sjálfskiptingar Honda.

Samhliða frumsýningunni ætlar Askja að formlega hefja hjólasumarið 2023 og sýna ný mótorhjól frá Honda. Fyrstu Honda mótorhjólin voru flutt inn af Honda umboðinu árið 1962. Nýr Honda Civic og mótorhjólin verða til sýnis í sýningarsal Honda, Krókhálsi 13.