AKA bílaleiga í Skútuvogi er elsta starfandi bílaleiga landsins. Hún var stofnuð af Kjartani Ingimarssyni árið 1965 í kringum einn Land Rover sem Kjartan leigði út frá bílskúrnum sínum á Kirkjuteigi til Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur.
Magnús Oddur Guðjónsson keypti AKA árið 2012 og nú eru í flotanum um 500 bílar. Önnur sérstaða AKA er að fyrirtækið reiðir sig ekki á erlenda eða innlenda ferðamenn í starfsemi sinni heldur hafa sveitarfélög, stofnanir og önnur fyrirtæki nær eingöngu verið viðskiptavinirnir í þessi tæpu 60 ár sem bílaleigan hefur starfað.
„Við höfum tekið líka talsvert mikið af Maxus bílum frá Vatt ehf. og það er þrýstingur frá viðskiptavinum okkar að geta boðið rafknúna bíla,“ segir Magnús.
„AKA er ekki hefðbundin bílaleiga því við bjóðum ekki skammtímaleigu á bílum og leigjum ekki út til ferðamanna. Við höfum verið í samstarfi við Reykjavíkurborg og dótturfélög frá upphafi. Framboðið hjá okkur eru vinnubílar og það er ákveðin krafa t.a.m. frá Reykjavíkurborg um orkuskipti og því hafa leiðir okkar og Vatt ehf. legið vel saman. Við bíðum líka með óþreyju eftir nýja eT90 pallbílnum frá Maxus. Reykjavíkurborg heldur úti stórum flota pallbíla og það er ríkur vilji að skipta honum út fyrir rafknúnar gerðir.“
Pétur Gunnarsson, flotastjóri hjá AKA, segir að fyrirtækið hafi fengið BYD sendibíl að láni fyrr í sumar og hann hafi komið vel út. Oft snúist starfsemin um að kaupa bíla eftir óskum leigutakanna og BYD sendibíllinn tikkaði í öll boxin. Útleiga á rafknúnum atvinnubílum einskorðist að vissu leyti við að notkunin fari fram á höfuðborgarsvæðinu, enn sem komið er. Hlutfall rafknúinna bíla í flota AKA aukist með hverju árinu enda aukist drægni rafbíla einnig með hverju ári.