Líf Elizu tók óvænta stefnu árið 2016 þegar sú hugmynd kom upp að Guðni færi í framboð til embættis forseta Íslands en það var eitthvað sem hafði ekki komið til tals fyrr en nokkrum vikum áður en ákvörðunin var tekin.

Þegar Guðni var kjörinn forseti kom upp ný staða fyrir Elizu. „Við vorum með lítil börn og þurftum að taka einn dag í einu. Ég þurfti að hugsa um hvernig ég vildi vera sem forsetafrú og hvaða áhrif ég vildi hafa á samfélagið.“ Eliza vissi strax að hún vildi vera virk og gera gagn fyrir íslenskt samfélag, en hún var líka meðvituð um mikilvægi þess að aðlaga sig að nýjum kringumstæðum og nýta tækifærin sem þeim fylgdu.

„Þegar ég lít til baka þessi átta ár hafa jafnréttismál alltaf verið mikilvæg fyrir mig,“ segir Eliza. Hún hefur nýtt stöðu sína og rödd sína til að vekja athygli á jafnréttismálum og stuðla að framförum í þeim efnum. „Ég vildi nýta rödd mína, rödd sem er með hreim þegar ég tala íslensku og reyna að breyta viðhorfum til maka þjóðhöfðingja.“

Hún segir það þó hafa verið skrítna upplifun að vera skyndilega í þessari stöðu. „Þetta eru svo mikil forréttindi en til að byrja með fannst mér stressandi að það væri engin handbók eða reglur um þessa stöðu. Ég fór þó mjög fljótlega að líta það jákvæðum augum, það voru engar reglur til þess að brjóta og þá gat ég mótað þetta eftir mínu höfði.“

Viðtalið við Elizu Reid er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.