Leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir eða Heida Reed eins og hún kallar sig í Bretlandi þar sem hún býr og starfar lauk nýverið tökum hér á landi en hún fer með hlutverk Stellu Blómkvist í samnefndri sjónvarpsþáttaröð sem Sagafilm framleiðir. Þættirnir byggja á bókunum um lögfræðinginn Stellu Blómkvist sem hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi og einnig í Þýskalandi og Tékklandi. Höfundur bókanna skrifar undir dulnefninu Stella Blómkvist en raunverulegt nafn höfundarins er enn á huldu. Handritshöfundar eru Jóhann Ævar Grímsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Andri Óttarsson en Árni Filippusson stýrir kvikmyndatöku.
Gaman að leika ámóðurmálinu
Þættirnir fjalla um lögfræðinginn og einfarann Stellu Blómkvist (29) sem er fengin til verja skítseiðið og eiturlyfjasalann Sæma sem er ásakaður um að hafa myrt unga konu á vegum forsætisráðuneytisins í sjálfu Stjórnarráðinu. Hann neitar staðfastlega sök, en bak við tjöldin fara valdamiklir aðilar á stjá og reyna allt hvað þeir geta til að gera Stellu erfiðara fyrir að sinna starfi sínu. Þannig hefst sería af ævintýrum þar sem Stella þvælist inn í atburðarás sem þar sem helstu valdablokkir á Íslandi myndu ekki hika við að hreinsa einn snuðrandi lögfræð- ing út af borðinu. En Stella getur ekki látið kyrrt liggja, sérstaklega þegar hún ein getur komist að sannleikanum. Heiða segir það hafa verið einstaklega gaman að leika hér á landi og hvað þá á móðurmálinu þó svo að hún hafi verið örlítið ryðguð í því. „Heima þekkja allir alla og allir hafa unnið saman áður sem gerir andrúmsloftið einstaklega afslappað og áreynslulaust á tökustað. Þetta er svolítið eins og fjölskyldan sé saman komin. Það er kannski helst ég sem þekki fáa þar sem ég hef að mestu verið að vinna erlendis.“ Heiða segir það mikil forréttindi að fá vinnu heima og ná á sama tíma að heimsækja fjölskyldu og vini. Hún vonast til að geta gert meira af því í framtíðinni. Þættirnir verða frumsýndir í Sjónvarpi Símans í haust og verða einnig sýndir á erlendum sjónvarpsstöðvum á næsta ári.
Lofuð víða um heim
Ef nafni Heiðu er flett upp má finna ýmis skemmtileg við- töl við hana sem og greinar um hana þar sem störf hennar eru lofuð. Í grein sem Telegraph birti um Heiðu fyrir nokkru var einmitt farið fögrum orðum um hana bæði fyrir hlutverk sitt í Poldark sem og hispurslausar skoð- anir hennar og fas sem var meðal annars rekið til þjóð- ernis hennar. Var einnig rætt um nýja hlutverk hennar sem Stella Blómkvist en það krefst þess meðal annars að hún komi nakin fram. Heiða segist ekki setja það fyrir sig í þessu starfi og henni líði bara vel með það. „Mig langar hins vegar að komast á þann stað að ég geti klætt mig úr í vinnunni og ekki haft áhyggjur af því hvað áhorfendur eru að hugsa, eða hvað þeir eru að fara að segja eða skrifa,“sagði Heiða meðal annars.
Langaði alltaf í leiklist
Heiða útskrifaðist sem leikkona frá Drama Centre London árið 2010 og hefur síðan haslað sér völl sem leikkona í kvikmyndum og sjónvarpi í Bretlandi. Áður en að Heiða fór í leiklistarnám starfaði hún sem farsæl fyrirsæta á Indlandi og víðar. Hún segist alltaf hafa langað í leiklistina. „Ég ákvað að vera á Indlandi þar til ég var tilbú- in. Svo þegar sá tímapunktur kom flutti ég til London þar sem ég valdi að fara í alþjóðlegt nám.“ Íslendingar kynntust Heiðu fyrst í spennuþáttunum Hraunið sem sýndir voru á RÚV en síðar hefur hún slegið rækilega í gegn í hlutverki sínu sem Elizabeth í BBC búningadramanu Poldark. Heiða segist strax hafa heillast af hlutverkinu við lestur þess. Eins og þeir sem fylgjast með þáttunum hér á landi vita er karakter Heiðu lævís og ákveðinn. Sumir myndu jafnvel nota sterkara orð yfir hann. „Því leiðinlegri sem karakter minn er í þáttunum því skemmtilegra er fyrir mig að leika hann,“ segir Heiða og hlær. Hún viðurkennir líka að aðdáendur hennar og áhorfendur hafi átt það til að gefa henni nánast auga á förnum vegi og kannski dæma hana út frá karakternum. „Ég þarf stundum að minna mig á að ég ber svo sannarlega ekki ábyrgð á því hvað hún Elizabeth gerir á skjánum né að sannfæra aðra um að ég sé ekki eins og hún í raunveruleikanum.“ Hún segir það sem gerir vinnuna sína hvað skemmtilegasta sé það að karakterinn hennar þróist á hverju ári og breytist með hverjum þætti og hverri þáttaröð eftir kringumstæðum rétt eins og fólk gerir flest í raunverulegu lífi. „Ég hef verið mjög sátt við hvernig hann er skrifaður.“
Erfitt að plana framtíðina
Heiða hefur einnig leikið á hvíta tjaldinu en hún fór með hlutverk í myndinni One Day, rómantískri kvikmynd þar sem hún lék á móti Anne Hathaway og Jim Sturgess. Hún segir það hafa verið skemmtilega og dýrmæta reynslu. Baráttan um hlutverkin getur verið mikil og hörð og þar af leiðandi oft erfitt á köflum að vera ungur leikari að byggja upp feril sinn. Langur tími geti liðið á milli verkefna sem gerir lífið óstöðugt og erfitt á köflum að sögn Heiðu. Spurð um stöðuna í dag segist Heiða í raun hafa verið einstaklega heppin með verkefni síðustu fjögur árin og ekki þurft að vinna fleiri störf með leiklistinni sem sé mikill lúxus. „Ég er með góðan hóp af fólki sem aðstoðar mig við feril minn, frábæran umboðsmann og svo framvegis. Öðruvísi væri þetta ekki hægt. En þó svo að það gangi vel akkúrat núna þá fylgir starfinu gríðarleg mikið óvissa. Þú veist aldrei hvenær næsta verkefni kemur eða hvort það komi. Þannig að ég þarf að vera mjög skynsöm og leggja fyrir til að eiga fyrir húsnæði og framtíðinni. Það er aldrei að vita hvernig ferillinn þróast og því svolítið erfitt að plana framtíðina sökum þess. Og einmitt þess vegna eru mjög margir sem gefast upp og hætta.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í Eftir vinnu, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.