Breska tískufyrirtækið Mercier hefur ákveðið að gefa versluninni Studio Sport á Selfossi forskot á sölu úlpna fyrirtækisins. Studio Sport býst við sendingu af úlpum frá Mercier í næstu viku en úlpurnar verða ekki seldar í Bretlandi fyrr en í haust.

Linda Björk Hilmarsdóttir, meðeigandi verslunarinnar Studio Sport á Selfossi, segir að aðalmarkhópurinn séu ungir drengir en verslunin byrjaði fyrst að selja vörumerkið fyrir 4-6 vikum síðan.

„Í Bretlandi eru úlpusölur bundnar við ákveðnar árstíðar en Mercier áttaði sig á því að Ísland væri í raun nokkurs konar úlpuland allan ársins hring. Þetta er annað vörumerki sem við tökum inn en við erum líka með sænsku vörurnar Stronger.“

Linda Rós Jóhannesdóttir og Gylfi Birgir Sigurjónsson stofnuðu Studio Sport árið 2017 en Linda Björk og maðurinn hennar Davíð Lúther Sigurðarson, fyrrum framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Sahara, komu inn í reksturinn í fyrra þegar þau fluttu á Selfoss.

„Það hefur alla tíð verið þannig að kúnnahópurinn hefur verið fólk úr Árborg, en það er að breytast með sérstöðu verslunarinnar. Það eru rosalega margir sem koma hingað á laugardögum sem eru að fara út að borða í miðbæinn á Selfossi og kíkja svo til okkar,“ segir Linda og bætir við að netverslunin hafi einnig aukist til muna.

Hún segir að vörumerkið sé einnig spennandi að því leytinu til að það nái sérstaklega til 10 til 16 ára drengja. „Oft er svo erfitt að ná til þeirra og við pöntuðum ýmsar stærðir. En við áttuðum okkur ekki alveg á því að það væru einmitt þessir ungu drengir sem bíða í röðum eftir að fá meira,“ segir Linda.