Það er gaman að bregða sér í borgarferð í desember og heimsækja jólamarkaði sem eru á hverju strái í evrópskum borgum. Hér eru átta af vinsælustu jólamörkuðum álfunnar.
Salzburg
Salzburg er með mikla hefð þegar kemur að jólamörkuðum. Þekktasti jólamarkaður austurrísku borgarinnar er Salzburg Christkindlmacht á Dómkirkjutorginu. Saga jólamarkaðarins nær aftur til 15. aldar. Það er margt skemmtilegt í gangi á markaðnum og mjög jólalegt um að litast með fjölda fallegra kofa sem setja fallegan svip á torgið.
Boðið er upp á jólaglögg í austurrískum anda og heitar hesilhnetur ásamt fleira góðgæti. Austurríkismenn eru miklir sælkerar og því fá gestir jólamarkaðarins að kynnast. Boðið er upp á sérstaka Krampus göngu en Krampus er eins og Grýla okkar Íslendinga, skuggaleg kynjavera sem kemur í aðdraganda jólanna og hræðir börnin. Opið frá 15. nóvember til 1. janúar.
Köln
Í Köln er mjög jólalegt um að litast á aðventunni og þar í borg má finna nokkra jólamarkaði. Stærsti þeirra er Markt der Engel sem er í miðborginni rétt við dómkirkjuna frægu. Þar má upplifa sanna töfra jólanna þar sem hundruð ljósa skína eins og stjörnur fyrir ofan gesti og gangandi. Jólamarkaðurinn er eins og fallegur jólabær með mikið af fagurlega skreyttum kofum sem selja kræsingar í mat og drykk sem og fallegar gamaldags jólavörur og leikföng. Opið 18. nóvember til 1. janúar.
London
Winter Wonderland er glæsilegur jólamarkaður í Hyde Park í London. Garðurinn er skreyttur á glæsilegan hátt með mikilli litadýrð. Eftir að gestir hafa skoðað fagurlega skreytta sölubásana og fengið sér gott að borða og drekka er hægt að bregða sér á skauta á flottu skautasvelli, fara í fjölmarga rússíbana, fá far í hestvagni eða hitta sjálfan jólasveininn. Opið 21. nóvember til 5. janúar.
Basel
Jólamarkaðurinn í Basel er sérlega glæsilegur en hann er í gamla miðbænum í svissnesku borginni. Hann teygir sig á milli Barfusserplatz og Munsterplatz og samanstendur af 155 viðarkofum sem selja allt frá jólaglöggi, vöfflum, og svissneskri matargerð eins og raklet og rösti til handgerðra leikfanga, skartgripa og jólaskrauts.
Það má ekki gleyma að smakka á heimatilbúnum svissneskum kökum og sætabrauði sem og feuerzengenbowle sem er þekktur, þýskur drykkur gerður úr sykurbrauði sem er bleytt með rommi og svo hitaður yfir eldi og úr verður bragðgott vín. Opið frá 28. nóvember til 23. desember.
Madríd
Jólamarkaðurinn í Madríd er staðsettur á Plaza Mayor í miðborginni og þar er líf og fjör á aðventunni. Jólaandinn svífur yfir vötnum þar sem gestir geta keypt handunnið jólaskraut fyrir heimilið og jólatréð heima í stofu. Kórar syngja jólalög og dansarar eru meira að segja með í för sem sýna þjóðdansa frá hverju héraði á Spáni. Risastór jólakúla sem gerð er úr ljósum stelur senunni en hægt er að labba í gegnum hana.
Amsterdam
Vetrarparadísin í Amsterdam er tilvalin fyrir fjölskyldur eða einstaklinga sem hafa gaman af að gera eitthvað annað á jólamarkaði en að versla eða borða. Þar er hægt að fara í ýmsa leiki m.a. krullu eða fara í sleðaferð á snjóþotusleða. Þá er auk þess hægt að fara í snjókast með gervisnjó í Snjógarðinum svonefnda. Vinsælt er að gestir jólamarkaðarins grilli sykurpúða á skemmtilega skreyttum eldstæðum. Síðan er hægt að enda kvöldið með því skella sér í vetrarbíó og horfa á nostalgíu jólamynd. Opið frá 19. desember til 5. janúar.
Mílanó
Mílanó er ein helsta tískuborg Evrópu en jólamarkaðurinn þar í borg þykir ákaflega fallegur og skemmtilegur. Hann er staðsettur á Il Duomo torginu í miðborginni og býður upp á stórfenglegt útsýni yfir á hina stóru og fögru dómkirkju borgarinnar.
Hér er boðið upp á ítalskar kræsingar eins og þær gerast bestar, gómsætar kökur og drykki sem og Yuletide minjagripi í anda jólanna. Ef áhugi er fyrir hendi er hægt að bregða sér á óperu í La Scala óperuhúsinu sem er aðeins steinsnar í burtu. Opið frá 1. desember til 5. janúar.
Búdapest
Vörösmarty jólamarkaðurinn í Búdapest er sá elsti og af mörgum talinn sá flottasti í ungversku höfuðborginni. Hér er hægt að njóta jólaljósanna í botn og fara á skauta á Vörösmarty torginu. Maturinn spilar stórt hlutverk á jólamarkaðnum. Heitar, nýgrillaðar pylsur, pönnukökur, hvítlauks- og ostaflatbrauð og jólaglögg. Jólalyktin er í loftinu og mikið af fallegu handverki til sölu í básunum sem umlykja jólamarkaðinn í hjarta gamla borgarhlutans. Opið frá 15. nóvember til 31. desember.
Umfjöllunin um jólamarkaði er úr Jólagjafahandbók Eftir vinnu.
Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið blaðið í heild hér.