Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi Íslands og formaður Bandalags íslenska skáta segist sakna þess að sjá íslenska fánann blakta við hún hér í höfuðborginni, en sjálf er hún vön því í sinni heimabyggð að flaggað er við öll hátíðleg tækifæri við flest hús og fyrirtæki en skátafélagið á staðnum tekur jafnframt að sér að sjá um að flagga fyrir bæjarfélagið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um kom í ljós í óformlegri könnun sem blaðið gerði um páskahelgina að víða er pottur brotinn í því að opinberar stofnanir og bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu haldi fánadagana í heiðri þó mælt sé fyrir um þá í lögum.

Þannig var það einungis Garðabær sem flaggaði í hálfa stöng á Föstudaginn langa við bæjarskrifstofur sínar af fjórum stærstu sveitarfélögunum, en hvorki höfuðborgin Reykjavík, né Kópavogur eða Hafnarfjörður héldu í hefðina.

Sér aldrei fánann í Reykjavík

„Þegar ég er í Reykjavík finnst mér ég aldrei sjá íslenska fánann, það er eiginlega þannig. Ég get alveg tekið undir það að virðingin fyrir hefðinni virðist vera að minnka, sem er miður,“ segir Marta en hún segir þó að það fari mjög mikið eftir því hvar á landinu sé um að ræða.

„Ég er sjálf úr Grundarfirði og þar er fólk mikið að flagga, og sást til dæmis fáninn í hálfa stöng víða á Föstudaginn langa, sem og almennt á hátíðum og fánadögum er mikið um að einstaklingar og fyrirtæki flaggi. Í bænum sjá skátarnir um það að flagga fyrir bæjarfélagið og er ég viss um að mörg skátafélög hér í borginni væru til í að taka það sér fyrir sveitarfélög og fyrirtæki í borginni að sjá um að halda í virðingu fánans og hefðanna.“

Skátarnir ávalt viðbúnir að aðstoða við að flagga

Marta segir bandalagið þó ekki geta sagt skátafélögunum fyrir verkum, en starfsmenn bandalagsins séu boðnir og búnir að hjálpa fólki og fyrirtækjum að komast í samband við félög sem geta tekið þetta að sér, sem og að leiðbeina um notkun fánans.

„Ég er líka viss um að ef fólk hóar í næsta skáta, séu þeir ávalt viðbúnir að hjálpa, en svo má líka alltaf hringja á skrifstofutíma hér í bandalagið í síma 559-9800,“ segir Marta sem segir að skátar hafi enn líkt og hingað til áhuga á fánanum og því að hann sé meðhöndlaður af virðingu og samkvæmt reglum.

„Ungmennum í skátastarfi er kennd umgengni við íslenska fánann en um leið og þú kannt grunnatriðin þá fer fólk að nota fánann meira því það er ekkert sem bannar að hann sé mikið notaður, nema auðvitað á nóttinni. Ég held að því miður séu margir að mikla fyrir sér notkun fánans, en um leið og fólk er meðvitað um reglurnar þá eru ótal tækifæri til að flagga íslenska fánanum.“

Miður ef dregur hefur úr metnaði fyrirtækja og stofnana

Marta segir það miður ef dregið hefur úr metnaði fyrir því að flagga þjóðfánanum við hátíðleg tækifæri meðal íslenskra fyrirtækja og stofnana, þó hún telji að svo sé ekki meðal almennings eins og sjá má á myndum sem fylgdu umfjöllun Viðskiptablaðsins eftir páskahelgina.

„Já auðvitað eigum við að flagga á fánastöngum landsins á fánadögunum. Við þurfum endilega að snúa þessari þróun við, það er mjög gaman að sjá íslenska fánann við hún, enda fellur hann vel við okkar umhverfi,“ segir Marta og segir af og frá að það sé einhver þjóðrembingur falinn í því að halda íslenska fánann í heiðri.

„Við þá sem þannig tala segi ég bara á móti að meðan þjóðlönd heims ákveða að fáninn sé einkennismerki þeirra, þá er enginn þjóðrembingur að halda því einkennismerki á lofti. Það má segja að fáninn sé ákveðið vörumerki, við merkjum grænmetið okkar, og hvað annað með íslenskum fána og þannig einkennum við bæði okkur sjálfa og okkar vörur án þess að í því felist einhver rembingur um að við séum öðrum fremri.

Það er til dæmis mjög gaman að því að koma til Sviss, þar sem fáninn þeirra blaktir á hverri einustu fánastöng og upplifir maður það alls ekki sem einhver þjóðrembing, heldur er þetta fallegur fáni sem maður sér nánast hvar sem litið er og er hann hluti af vörumerkinu Sviss.

Á 50 ára lýðveldisafmæli Íslands árið 1994 hleyptu skátarnir af stokkunum verkefninu Íslenska fánann í öndvegi þar sem markmiðið hefur verið að hvetja almenning til að halda á lofti íslenska fánanum. Undanfarna áratugi höfum við í samstarfi við Eimskip gefið börnum í grunnskóla bækling með fánareglunum og litla fánaveifu og vonumst við til þess að hefðin að flagga íslenska fánanum lifi áfram með þjóðinni.“