Öryggismiðstöðin færði Klettaskóla Indi spjaldtölvu og PC Eye Mini augnstýribúnað frá Tobii í jólagjöf en búnaðurinn er mjög mikilvægur fyrir þá nemendur skólans sem geta ekki tjáð sig með orðum. Klettaskóli er sérskóli á grunnskólstigi sem þjónar öllu landinu. Í skólanum eru fjórtán nemendur að læra að stjórna tölvumús með augunum. Nemendur eru á ýmsum aldri og eiga það sameiginlegt að tjá sig ekki með orðum.

,,Við erum mjög þakklát Öryggismiðstöðinni fyrir þessa gjöf. Við höfum átt í nánu samstarfi við fyrirtækið í nokkur ár um kennslu, ráðgjöf og tæki, þar sem notast er við sértækan tölvubúnað fyrir nemendur sem  gerir þeim kleift að tjá sig með augunum. Samvinnan hefur ávaxtað sig ríkulega, en augnstýribúnaður er nú notaður víða í skólastarfi Klettaskóla," segir Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla en hún hefur staðið í fararbroddi við að innleiða augnstýribúnaðinn í skólanum.
Öryggismiðstöðin ákvað að gefa búnaðinn til Klettaskóla í stað hefðdbundinna jólagjafa til viðskiptavina fyrirtækisins að sögn Ómars Arnar Jónssonar, markaðsstjóra Öryggismiðstöðvarinnar.