Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Bako Ísberg, er mikill áhugamaður um bíla og svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um reynslu sína af þeim í gegn um tíðina.
Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?
,,Það er nýi bíllinn minn, Land Rover Defender. Hann er á 35 tommu dekkjum og kemst ansi víða, alla vega allt innanbæjar. Hann er með breytinguna frá Arctic Trucks. Ég átti áður Discovery 4 og 5 og hef verið mikill Land Rover aðdáandi. Ég er líka Mercedes-Benz aðdáandi og við erum með nýjan EQ-rafbíl á heimilinu. Mér finnst eiginlega skemmtilegra að keyra hann innanbæjar því hann er minni en Defenderinn, afar lipur og auðvelt að leggja honum í stæði. Ég stel honum alltaf af konunni þegar ég get. Hún er alveg sátt við það því hún tekur þá stóra Defenderinn. Annars eru þeir báðir mjög góðir en Defenderinn er auðvitað mjög stór, rúmgóður og þægilegur. Hann er mjög fallegur jeppi og með sérlega góða aksturseiginleika.“
Hver er eftirminnilegasta bílferðin?
,,Ég keypti Hillman Hunter bíl af pabba mínum þegar ég var á menntaskólaárunum. Þau voru mörg ævintýrin á þessum bíl. Mér er sérlega minnisstætt þegar við vorum að keyra nokkrir félagar á malarvegi þar sem Húsasmiðjan er í dag. Allt í einu kom húddið beint á gluggann. Það var eitthvað sem spenntist upp og margt skemmdist undir húddinu. Við vorum í nettu sjokki strákarnir, enda var þetta var sannkölluð hasarferð. Það var gert við bílinn og hann keyrður eitthvað áfram. Á endanum seldi ég bílinn fyrir tvo víxla eins og voru í tísku þá. Ég fékk reyndar hvorugan víxilinn borgaðan. En þetta var mjög eftirminnilegur bíll. Önnur eftirminnileg bílferð var á jeppa sem ég var á í veiðiferð. Ég var að aka yfir Miðfjarðará og festi bílinn úti í miðri á. Jeppinn fylltist af vatni en ég opnaði einfaldlega dyrnar og lét vatnið renna í gegn. Þarna kunni maður ekki að aka yfir á. En þessi ökuferð yfir ána kenndi manni ýmislegt.“
Viðtalið birtist í fullri lengd í nýjasta tölublaði Bílablaðsins.