Á brúðkaupsdaginn er mikilvægast að líða vel í eigin skinni og að sjálfsögðu vilja flestir líta sem allra best út á þessum stóra degi.
Eftir vinnu fékk Hörpu Kára förðunarfræðing til þess að taka saman nokkur skotheld ráð fyrir brúðkaupsdaginn. Hún leggur áherslu á að undirbúningurinn hefjist með góðum fyrirvara og að brúðir finni hvað hentar þeim best. Hér eru hennar ráð til að tryggja að útlitið verði fullkomið á brúðkaupsdaginn:
- Ég mæli ekki með því að bóka margar húðmeðferðir stuttu fyrir brúðkaup heldur plana þær með töluverðum fyrirvara. Þá myndi ég mæla með að bóka tíma hjá húðlækni sem gæti bent þér á hvað væri æskilegast miðað við þann tíma sem væri til stefnu. Ég vil þó taka það fram að alls ekki allar brúðir fara í húðmeðferðir fyrir brúðkaup og það er hið besta mál.
- Drekktu mikið vatn, notaðu sólarvörn á hverjum degi og passaðu að brenna ekki í sólinni. Veittu húðinni góðan raka mánuðina fyrir brúðkaup. Þannig verður húðin upp á sitt allra besta fyrir brúðarförðunina.
- Bókaðu förðun hjá fagaðila sem þú treystir og ekki reyna að spara nokkrar krónur þar, þetta er andlitið þitt.
- Haltu þínum persónulega stíl, einnig á brúðkaupsdaginn. Ekki fara út af sporinu og elta eitthvað brúðkaups “look”. Það eru engar reglur þegar það kemur að hári og förðun fyrir stóra daginn. Vertu með uppáhalds varalitinn þinn á brúðkaupsdaginn, því einhver er ástæðan fyrir því að hann er í uppáhaldi hjá þér.
- Brúnkusprautun, litun og plokkun. Þarna koma stundum upp leiðinda atvik. Ef þú ætlar þér að gera þetta, farðu varlega nema þú sért fastakúnni í þessum meðferðum og vitir nákvæmlega hvað þú vilt. Mér finnst alltaf leiðinlegt þegar að brúðurin sem ég er að farða er á litinn eins og pulsa eða með kolsvartar augabrúnir, nema að sjálfsögðu það sé lúkkið sem hún sækist eftir. Ég er sátt þegar brúðurin er sátt og finnst hún ekki hafa gert mistök í þessum efnum.