Fimm einstaklingar voru heiðraðir sérstaklega fyrir framlag þeirra til upplýsingatækni á Íslandi á aðalfundi Ský 28. febrúar 2018. Þau Anna Ólafsdóttir Björnsson, Arnlaugur Guðmundsson, Frosti Bergsson, Sigurður Bergsveinsson og Þorsteinn Hallgrímsson voru þá gerð að heiðursfélögum Ský, en þau hafa öll unnið mikið og gott starf fyrir félagið og hvert á sinn hátt ritað blað í þróun tölvuvæðingar á sinni starfsævi. Þá hafa þau tekið virkan þátt í að taka saman sögu tölvuvæðingar á Íslandi fyrir félagið.
Ský hefur að leiðarljósi að gera einstaklinga að heiðursfélögum sem hafa unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið og/eða brautryðjendastarf í upplýsingatækni á Íslandi. Miðað er við að heiðra fólk á seinni hluta starfsævinnar en frá upphafi hefur Ský heiðrað 24 einstaklinga.
Ský er félag þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á upplýsingatækni á Íslandi. Helsta starfsemi félagsins er að halda fræðslufundi og viðburði tengda tölvutækni svo sem UTmessuna. Félagið veitir árlega Upplýsingatækniverðlaunin og gefur út tímaritið Tölvumál. Ský á 50 ára afmæli í byrjun apríl.