„Við þurfum að þekkja landið til að elska það og virða og einmitt þar gegnir Ferðafélag Íslands afar mikilvægu hlutverki,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í ávarpi sínu á 90 ára afmælisfagnaði FÍ sem haldinn var í Safnahúsinu í vikunni.

Þann 27. nóvember voru 90 ár frá því að Ferðafélag Íslands var stofnað og af því tilefni var blásið til veislu í Safnahúsinu. Fjölmargir vottuðu þar hinu aldraða en jafnfamt síunga afmælisbarni virðingu sína, meðal annars forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Ekki mikið hálendisdýr
Guðni sagðist sjálfur ekki vera mikið hálendisdýr en hafi þó fundið á eigin skinni að útivera og útivist sé einföld leið til að fyllast krafti, ánægju og gleði. „Fjallabaktería, það er baktería sem gott er að fá,“ sagði Guðni sem virðist vera á góðri leið með að smitast af títtnefndri bakteríu og sýndi myndbrot af því þegar hann, í fylgd fjögurra FÍ fararstjóra, gekk á gönguskíðum upp í öskju Öræfajökuls síðasta sumar og toppaði bæði Hvannadalshnúk og Vestari Hnappinn.

Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ, sagði í ávarpi sínu að þrennt þyrfti að vera fyrir hendi til að hugsjón eins og stofnun FÍ á sínum tíma, fái öfluga framrás. Í fyrsta lagi þurfi hugsjónin að vera góð af sjálfri sér og í öðru lagi þurfi hún að vera borin fram af öflugum forsvarsmönnum. Þetta tvennt dugi þó ekki til heldur þurfi hagstæð ytri skilyrði einnig að vera til staðar. Allt þrennt hafi verið fyrir hendi þegar óskastund FÍ rann upp fyrir 90 árum.

Ómetanlegt sjálfboðastarf
Ólafur sagði að ytri aðstæður breytist hratt og hægt sé að fullyrða að þær hafi gerbreyst á þeim 90 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins. Gæfa FÍ hafi hins vegar legið í því að átta sig á breyttum þjóðfélagsþáttum, ferðavenjum og nýjum kröfum ásamt því að hafa gerst frumkvöðull á nýjum sviðum ferðamennsku, svo sem í lýðheilsuverkefnum og barna- og ungmennastarfi. Ótalin sé þá mesta gæfa FÍ sem sé fólgin í ómetanlegu sjálfboðaliðastarfi félagsmanna sjálfra.

Heiðursfélagar og gullmerkishafar FÍ
Tveir voru sæmdir nafnbótinni Heiðursfélagi FÍ á afmælisfagnaðinum, þeir Hjörleifur Guttormsson og Ívar J. Arndal.

Þá fengu tuttugu manns Gullmerki félagsins, þau: Bragi Hannibalsson, Elísabet Sólbergsdóttir, Guðjón Magnússon, Hilmar Antonsson, Ingvar Sveinbjörnsson, John Snorri Sigurjónsson, Jónína Ingvadóttir, Lára Ómarsdóttir, Magnús Jaroslav Magnússon, Oddur Sigurðsson, Ólafur Már Björnsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson, Rannveig Einarsdóttir, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Sigríður Lóa Jónsdóttir, Sigurbjörg Bjarnadóttir, Sigurður Harðarson, Unnur Valgerður Ingólfsdóttir, Valtýr Sigurðsson og Viðar Þorkelsson.