Menntakerfi landsins kennir okkur ýmislegt, bæði gagnlega hluti og annað sem nýtist okkur ekki jafn vel. Fjármálalæsi er einn þeirra þátta sem fær ekki nægilegt pláss í námskránni að mínu mati, sé tekið mið af mikilvægi þess.
Í síðasta fjármálamola var aðeins komið inn á kaupmátt og verðbólgu. En hvað er kaupmáttur og hvernig er verðbólga mæld?
Hagstofa Íslands er með svörin við þessum spurningum sem við skulum skoða nánar.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna
Kaupmáttur ráðstöfunartekna segir til um það magn af vöru og þjónustu sem hægt er að kaupa fyrir laun. En magnið er breytilegt með tilliti til verðbólgunnar.
Jákvæður kaupmáttur bendir til þess að einstaklingar geta keypt meira magn fyrir hverja krónu og neikvæður kaupmáttur öfugt, minna magn fyrir hverja krónu.
Vísitala neysluverðs
Vísitala neysluverðs er mælieining sem er notuð til að mæla verðbólgu, þ.e. breytinguna á verðgildi og kaupmætti peninga. Í hverjum mánuði mælir vísitalan þær verðbreytingar sem hafa átt sér stað á vörum og þjónstu. En það er Hagstofa Íslands sem sér um útreikinga vísitölunnar.